2012 - 2013


Olga Sonja Thorarensen útskrifaðist af leikarabraut vorið 2012. Hún hlaut liðlega 5400 € í styrk til að starfa í 16 vikur með danska leikhópnum SIGNA. Signa hópurinn er þekktur fyrir framúrstefnulegar aðferðir í leikhúsi þar sem verk eru sett upp í óhefðbundnu rými og tíma og leitast er við að kanna hið óþekkta í listformi og efnistökum. Við undirbúning leikverks taka leikarar Signa virkan þátt í sköpunarferlinu og notast er við ýmis listform og miðla. Verkefni Olgu Sonju snýr að því að taka þátt í sköpunarferli og uppsetningu sýningar í Berlín á vordögum 2013.

 


Björn Halldór Helgason útskrifaðist með BA gráðu af tónsmíðabraut vorið 2012. Hann hlaut 3358 € í starfsnámsstyrk til að starfa með Agli Sæbjörnssyni myndlistar- og tónlistarmanni í Berlín. Starfsnámið snertir áhugasvið Björns Halldórs, sem er að blanda ólíkum miðlum í listrænni sköpun. Verkefni Björns Halldórs fólu m.a. í sér aðstoð við gerð mynd- og hljóðverka, flokkun verka listamannsins, uppsetningu á sýningum og vinnu við ýmsar tæknilegar útfærslur. Vinnustofa Egils Sæbjörnssonar í Berlín er sannkallaður suðupottur en með honum þar starfar fjölbreyttur hópur listamanna af ýmsum fagsviðum, s.s. leik- og danslistar, tónlistar og arkitektúr.

 


Pétur Ármannsson útskrifaðist af leikarabraut vorið 2012. Pétur hlaut 3121 € í styrk til að starfa í níu vikur hjá hinu virta leikhúsi Schaubuehne í Berlín. Á starfsnámsstímanum aðstoðar Pétur leikstjórann Egill Heiðar Anton Pálsson við uppsetningu á verkinu Notizen aus der Küche eftir argentínska leikskáldið Rodrigo García. Starfsnámið felur í sér tækifæri til að taka þátt í samtali við listamenn með mikla reynslu sem og að framkvæma praktísk og skapandi verkefni fyrir uppsetningu á leikverki.

 


Arnar Freyr Guðmundsson útskrifaðist með BA próf í grafískri hönnun vorið 2011. Hann hlaut 3986 € í styrk til að starfa í 13 vikur hjá Studio Laucke Siebein í Amsterdam. Studio Laucke Siebein leggur áherslu á að móta skapandi ímyndarstefnur, mörkun, setja bækur og sinna vefhönnun fyrir verkefni af bæði menningarlegum og viðskiptalegum toga. Eigendur stofunnar, Dirk Laucke og Johanna Siebein, hafa unnið til margra verðlauna í faginu, þ.á.m. Art Directors Club Award N.Y., The European Design Award og the Dutch Corporate Identity Award. Í starfsnámi sínu vann Arnar Freyr með öðrum hönnuðum við að hanna kynningarefni og bók fyrir sýningu húsgagnaframleiðanda, auk þess að sjá um útlitshönnun fyrir smærri fyrirtæki.

 


Dóra Hrund Gísladóttir útskrifaðist með BA próf í myndlist vorið 2012. Hún hlaut styrk upp á 3358 € til að starfa í 12 vikur með Elínu Hansdóttur, myndlistarmanni í Berlín. Dóra Hrund starfaði á vinnustofu Elínar þar sem hún aðstoðaði listakonuna við margs konar verkefni, t.d. rannsóknarvinnu, flokkun verka, samskipti við gallerí og söfn, smíði módela og hugmyndavinnu. Á sama tíma kynntist Dóra Hrund praktískum hliðum þess að vera sjálfstætt starfandi myndlistarmaður sem fól m.a. í sér að aðstoða Elínu við leit að nýrri vinnustofu, vinnu við textasmíði fyrir styrkumsóknir og aðra starfstengda texta.

 

Guðrún Theodóra Alfreðsdóttir lauk BA prófi í vöruhönnun vorið 2012. Hún hlaut liðlega 700 þúsund krónur í styrk til að starfa í þrettán vikur hjá Vitra Domaine des Boisbuchet í Frakklandi. Á Boisbuchet búgarðinu sameinast ungir hönnuðir, arkitektar og áhugafólk um hönnun undir handleiðslu heimsþekktra hönnuða, en Boisbuchet Vitra skipuleggur yfir þrjátíu námskeið á hverju sumri. Guðrún Theódóra starfaði síðasta sumar sem aðstoðarmaður framkvæmdastjóra Boisbuchet þar sem hún var tengiliður við hönnuði og sá um skipulagningu á námskeiðum. Ljóst er að í starfinu fólst dýrmætt tækifæri til tengslamyndunar, en meðal hönnuða sem störfuðu hjá Boisbuchet síðasta sumar voru Tomoko Azumi, Max Lamb og Jaime Hayon.

 


Signý Þórhallsdóttir útskrifaðist með BA í fatahönnun vorið 2011. Hún hlaut 730 þúsund krónur í styrk til að starfa í þrettán vikur hjá Eley Kishimoto í London. Fyrirtækið er þekktast fyrir prenthönnun og hefur m.a. hannað mynstur fyrir Hussein Chalayan og Alexander McQueen. Fyrirtækið sýnir fatalínu sína árlega á tískuvikunni í London. Signý starfaði í hönnunardeild Eley Kishimoto og aðstoðaði við að hanna sumarlínuna 2013. Helstu verkefni hennar voru almenn hönnunarvinna, teikning, sníðavinna og silkiþrykk.

 


Finnur Karlsson útskrifaðist með BA gráðu í tónsmíðum vorið 2012. Hann hlaut liðlega 850 þúsund krónur í styrk til að starfa í sextán vikur hjá Edition S tónverkamiðstöðinni í Kaupmannahöfn. Finni bauðst tækifæri til að starfa hjá Edition S í kjölfar vinnu sinnar hjá Íslensku Tónverkamiðstöðinni. Starfsþjálfunin snerti áhuga hans á sviði nótnaútgáfu, en hjá Edition S annaðist hann varðveislu á stafrænu handritasafni auk þess að útbúa verk til útgáfu, en það fól m.a. í sér prófarkalestur, leiðréttingar og tölvusetningar.

 


Gintare Maciulskyte lauk BA prófi í myndlist vorið 2012.  Hún hlaut u.þ.b. 520 þúsund krónur í styrk til að starfa í 16 vikur hjá textíllistakonunni Egle Ganda Bogdaniene sem er vel þekkt í heimalandi sínu, Litháen. Egle er sjálfstætt starfandi tesxtíllistakona og gegnir ennfremur starfi aðstoðarrektors í Vilnius Art Academy í Litháen. Gintare fékk að kynnast nýjum leiðum í rannsóknar- og hugmyndavinnu og að tileinka sér nýja tækni á sviði textíllistar. Þótt Gintare sé sjálf litháísk að uppruna gafst henni ekki tækifæri til að leggja stund á litháísku fyrr en hún fór í skiptinám frá LHÍ til Litháen haustið 2010. Þar kynntist hún Egle og hugmyndin að frekari samvinnu þeirra tveggja varð til.

 

2011 - 2012


Ásrún Magnúsdóttir útskrifaðist af dansbraut vorið 2011. Ásrún hlaut 2236 € í styrk til fimm vikna starfsnáms við TransEuropa hátíðina í Hildesheim í Þýskalandi. Ásrún var valin úr hópi umsækjenda fyrir verkefnið „Partner ship“ sem sett var upp á hátíðinni en að þessu verki komu þrír ungir sviðslistamenn frá Þýskalandi og þrír frá Íslandi. TransEuropa hátíðin hefur þróast í árvissan viðburð sem ennfremur er mikilvægur áfangastaður (samkomustaður “meeting point”) fyrir fjölbreyttan hóp sjálfstætt starfandi sviðslistamanna. Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að efla alþjóðlegt samstarf greinarinnar og á hverju ári eru valin sérstök samstarfslönd.

 


Björn Leó Björnsson útskrifaðist af námsbrautinni Fræði og framkvæmd vorið 2011. Hann hlaut 1856 € í styrk til að starfa með listakonunni Yael Bartana á Berlínartvíæringnum sumarið 2012. Verkefni listakonunnar var eins konar „sýndarráðstefna“ í leikhúsinu Hebbel am Ufer og í galleríinu Kunst-Werke. Þar er spurningum um Ísrael og Mið-Austurlönd varpað fram og svarað, m.a. gerð sú krafa að 3.3 milljónir Gyðinga snúi aftur til Póllands. Björn Leó tók þátt í að þróa hugmyndir listakonunnar og miðla þeim í sviðslistaframsetningu.

 

helga-joseps-med-sog_-small-166x2501

Helga Ragnheiður Jósepsdóttir útskrifaðist með BA gráðu af vöruhönnunarbraut vorið 2011.  Hún fékk liðlega 3300 € í styrk til að starfa í 12 vikur hjá Domaine de Boisbuchet í Frakklandi.  Domaine de Boisbuchet skipuleggur sumarnámskeið fyrir hönnuði og arkitekta en rekstraraðili er Vitra Design Museum.  Helga Ragnheiður annaðist skipulagningu námskeiða og starfaði sem aðstoðarmaður hönnuða.  Í kjölfar starfsþjálfunartímabilsins var Helgu Ragnheiði boðin stjórnunarstaða hjá Domaine de Boisbuchet.

 

rakel

Rakel Sólrós Jóhannesdóttir útskrifaðist með BA gráðu af fatahönnunarbraut vorið 2010.  Rakel Sólrós fékk 3976 € í styrk til að starfa í 11 vikur hjá Goldie London Limited.  Starfsþjálfunin fól í sér að fylgjast með daglegum rekstri fyrirtækisins og vöruþróun allt frá rannsóknarvinnu og framleiðslu til afhendingar á vöru en fyrirtækið selur m.a. fatnað og fylgihluti til Top Shop verslunarkeðjunnar.

 

bryndis

Bryndís Björnsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist vorið 2011.  Hún hlaut 3090 € í styrk til að starfa í 12 vikur hjá The Office í Berlín.  The Office samanstendur af fimm listamönnum og vinnur að útfærslu lista og listviðburða á framsækinn hátt, í ýmis konar rýmum og samfélagslegu samhengi.  The Office leitast við að rannsaka hvar, hvernig og eftir hvaða leiðum myndlist verður til í dag.  Verkefni Bryndísar voru m.a. framleiðslutengd verkefni, vinna við uppsetningar á sýningum og heimildamyndargerð.

 

ragnh

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir úrskrifaðist með BA gráðu af námsbrautinni Fræði og framkvæmd frá Leiklistar- og dansdeild vorið 2011.  Ragnheiður Harpa hlaut 2288 € í styrk til að starfa í fjórar vikur hjá Brut Wien í Austurríki.  Brut Wien er framleiðslufyrirtæki í sviðslistum og starfar með austurrískum sem og alþjóðlega sjálfstætt starfandi leikhópum.  Markmið starfsþjálfunarinnar voru að læra að þekkja ferlið á bak við framleiðsluna og að kynnast hugmyndafræði og markmiðum Brut Wien.  Sem dæmi um verkefni er hugmyndavinna í nánu samstarfi við listamenn, vinna við gerð fjárhagsáætlana, sviðstengd vinna, framleiðslustjórnun, markaðssetning o.m.fl.

 

2010-2011

einaringi

Einar Ingi Sigmundsson útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2009.  Hann hlaut styrk uppá 5069 € til að starfa í 12 vikur hjá arkitektastofunni KRADS í Árósum í Danmörku.  Einar Ingi vann við hönnun á kynningarefni fyrir stofuna sem fól m.a. í sér vinnu við hönnun efnis fyrir tímarit, bæklinga, vefmiðla og veggspjöld.

 

thorbjorn

Þorbjörn G. Kolbrúnarson útskrifaðist með BA gráðu af tónsmíðabraut vorið 2010.  Þorbjörn fékk 3080 € í styrk til að starfa í 7 vikur hjá Lapland Studio í Finnlandi.  Lapland Studio sérhæfir sig á sviði þrívíðrar hönnunar og annaðist Þorbjörn tónlistargerð fyrir tölvuleiki og aðra miðla á starfstíma sínum.

 

annagunndis2

Anna Gunndís Guðmundsdóttir útskrifaðist sem leikari vorið 2010.  Hún hlaut 5096 € í styrk til að starfa með SIGNA leikhópnum í Danmörku og tók þátt í sýningum með hópnum þar í landi og í Þýskalandi á starfstíma sínum.  SIGNA leggur m.a. áherslu á frelsi leikarans til sjálfstæðrar persónusköpunar.  Verkefni Önnu Gunndísar önnur en starf leikarans voru þáttaka í listrænu sköpunarferli, vinna við uppsetning á sýningum og vinna við búninga og sviðsmynd.

 

thorgerdur_edda_hall

Þorgerður Edda Hall útskrifaðist með BMus gráðu á selló vorið 2010.  Þorgerður Edda hlaut 5096 € í styrk til að starfa með Podiumfestivalen í Noregi í 16 vikur.  Podiumfestivalen er klassísk kammermúsíkhátíð þar sem alþjóðlegur hópur ungra framúrskarandi tónlistarmanna kemur fram.  Hátíðin fer fram í mars árlega í Haugesund í Noregi.  Á starfstíma sínum annaðist Þorgerður Edda almenna skipulagningu á hátíðinni sem m.a. fól í sér að sækja um styrki, skipuleggja tónlistardagskrá, bóka listamenn, annast markaðssetningu o.m.fl.

 

ragnheidurkara

Ragnheiður Káradóttir útskrifaðist með BA gráðu í myndlist vorið 2010. Hún hlaut 4205 € í styrk til að starfa í 13 vikur há SlowLab í Amsterdam sem rekið er af vöruhönnuðinum Carolyn Strauss.  SlowLab er þekkt fyrirtæki á sviði sjálfbærrar hönnunar og „slow design“.  Verkefni Ragnheiðar voru m.a. vinna við gerð á prótótýpum, uppsetning á sýningum, aðstoð við gerð á námsskrám og aðstoðarvinna á námskeiðum sem haldin eru í nafni SlowLab.

 

2009-2010

sindri

Sindri Páll Sigurðarson útskrifaðist með BA gráðu af vöruhönnunarbraut vorið 2008.  Sindri Páll hlaut 3600 € í styrk til að starfa í 16 vikur hjá sportvöruframleiðandanum K1X í München í Þýskalandi.  Verkefni hans á tímabilinu voru m.a. hönnun nýrrar línu í skófatnaði, endurhönnun eldri módela, vinna við markaðssetningu o.fl.

 

arnasigrun

Arna Sigrún Haraldsdóttir útskrifaðist með BA gráðu af fatahönnunarbraut vorið 2008.  Arna Sigrún hlaut 2400 € í styrk til að starfa hjá fatahönnuðinum Roksanda Ilincic í London. Roksanda lauk meistaraprófi frá Central Saint Martins í London. Á starfsþjálfunartímabili sínu kynntist Arna Sigrún daglegum störfum í hönnunarstúdíói sem selur vörur sínar út um allan heim.

 

magnus

Magnús Leifsson útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2007.  Hann hlaut 3000 € í styrk til að starfa í 12 vikur hjá ILoveDust í London.  Helstu verkefni Magnúsar voru vinna við lógógerð og týpógrafíu.

 

hafsteinn

Hafsteinn Júlíusson útskrifaðist með BA gráðu í vöruhönnun vorið 2008.  Hafsteinn hlaut 3000 € í styrk til að starfa hjá DiegoGrandi í Mílanó á Ítalíu.  Á starfstíma sínum fékkst Hafsteinn við verkefni tengd vöruhönnun og innanhúsarkitektúr.

 

halldororn

Halldór Örn Ragnarsson útskrifaðist með BA gráðu í myndlist vorið 2007.  Hann fékk 2550 € í styrk til að starfa í einn mánuð undir handleiðslu málarans M.Polille sem og til að gegna ýmsum störfum í Cosenza Art Gallery á Ítalíu.

 

sigridursoffia

Sigríður Soffía Níelsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í samtímadansi vorið 2009.  Hún hlaut 3300 € í styrk til að starfa í 14 vikur með Ernu Ómarsdóttur dansara og danshöfundi í Belgíu.  Á starfstíma sínum vann Sigríður Soffía með Ernu að undirbúningi verks sem fól í sér tækni- og sköpunarvinnu á sviði dans-, leik- og sönglistar.  Ennfremur kynntist Sigríður Soffía starfi einyrkjans í heimi sviðslista og vann með Ernu að undirbúningi og markaðssetningu verka hennar.

 

2007 - 2009

siggieggerts

Sigurður Halldór Eggertsson útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2006.  Hann hlaut 2500 € í styrk til að starfa hjá Big Active í London.  Big Active er heimsþekkt fyrirtæki á sviði hönnunar í tónlist og hefur m.a. unnið mörg verðlaun fyrir útlitshönnun á geisladiskum og vínylplötum.

 

troels

Troels S. Jörgensen útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2006.  Troels fékk 4500 € í styrk til að starfa í 26 vikur hjá Kilo Design í Kaupmannahöfn.

 

Elma Jóhanna Bachmann útskrifaðist með BA gráðu í fatahönnun vorið 2006.  Hún hlaut 3000 € í styrk til að starfa í 12 vikur hjá hönnuðinum Yasuo Umetada í París.

 

petra

Petra Bender útskrifaðist með BA gráðu í grafískri hönnun vorið 2006.  Petra hlaut 3000 € í styrk til að starfa hjá Ann Kyyro Quinn og Black Drape Films í London.

 

thorunn

Þórunn Árnadóttir útskrifaðist með BA gráðu af vöruhönnunarbraut vorið 2007.  Hún hlaut 2550 € í styrk til að starfa hjá t.n.a. Design Studio í London.

 

ragnhildur

Ragnhildur Kristjánsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í arkitektúr vorið 2005.  Ragnheiður hlaut 2850 € í styrk til að starfa hjá Julien De Smedt Architects í Danmörku.