Rannsóknarstofur

Rannsóknarstofa um letur og miðlun

Vettvangur rannsókna í leturfræði felur í sér mikla möguleika, allt frá skoðun á formlegri, hefðbundinni og menningarlegri merkingu hennar, að notkun hennar til að ná áhrifum og tjá tilfinningu – og að gera tilraunir í leturmeðferð og leturhönnun inn í framtíðina. Miðillinn, inntak texta og formið sem inntakinu er gefið eru samofin. Leturfræði, málfræði og ritun heyra saman á svipaðan hátt og líkami, hugur og sál. Að líta fram hjá þessu samhengi leturs, tungumáls og formgerðar, getur valdið misskilningi eða misnotkun.

Formgerð leturs getur borið með sér hugmyndafræði og vitneskja um það er mikilvæg. Sögulegar rætur leturfræðinnar eru bundnar menningar- og hugmyndasögu. Letur getur verið meðhöndlað eins og hlutur, skoðað sem mynd, eða við upplifum það sem tákn og þannig sem farveg fyrir tilfinningar og merkingu. Letur getur verið pólitískt leiðandi og getur haft sannfæringarmátt. Það hefur þannig áhrif á upplýsingar og skilning sem fæstir taka eftir eða gera sér grein fyrir.

Í rannsóknarstofunni skoðum við letur sem miðil og sem rannsóknarform. Gagnasöfnun og skoðun á notkun leturs, notagildi þess og ekki síst áhrifin af notkun þess eru meginviðfangsefnið í samhengi við (upplýsinga-)pólitík, menningu, sjónlistir og hverskonar miðlunarleiðir.

Viðfangsefni stofunnar er að kortleggja áhrif leturfræði á hugarfar, menningu og útbreiðslu þekkingar, bæði sögulega og í nútímanum. Niðurstöður og uppgötvanir verða hagnýttar til að bæta og skýra miðlunarverkefni sem varða hverskonar framsetningu hugmynda og inntaks í máli og myndum.

Dóra Ísleifsdóttir, prófessor í grafískri hönnun (LHÍ), 

fagstjóri MA í hönnun og kennari í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu (HÍ)

er umsjónarmaður Rannsóknarstofu um letur og miðlun.

Netfang: dora [at] lhi.is

Rannsóknarstofa í ljósmyndarannsóknum

Ljósmyndir eru miðill sem bæði má nota til þess að skrásetja og safna upplýsingum en einnig til þess að miðla hugmyndum, vinna með minningar, sjálfsmynd og ímynd einstaklinga og hópa. Ljósmyndir geta líka breytt hugmyndum okkar um heiminn, afstöðu til samfélagsins og náttúrunnar og upplifun okkar á sjálfum okkur og umhverfinu.

Í Rannsóknastofunni er ljósmyndin skoðuð bæði sem rannsóknartæki og sem miðill. Leitast er við að varpa ljósi á hvernig nýta megi ljósmyndir til þess að greina ólíka þætti í menningunni og um leið að skapa nýja sýn og ný tækifæri til að hugsa um samfélagið.

Meðal viðfangsefna Rannsóknastofunnar eru möguleikar ljósmyndunnar á að móta minningar, víkka út skynjun mannsins á umhverfinu og flókin tengsl milli upplifunar einstaklings og skrásetningar hans á þessari sömu upplifun. Þá hafa rannsóknir þátttakenda jafnframt beinst að því að skoða hvernig ljósmyndir tengjast hugmyndum um dauðleika og ódauðleika einstaklingsins og því hvernig ljósmyndir eru notaðar við sorgarúrvinnslu.

Rannsóknarstofa í Ljósmyndarannsóknum er auk þess samstarfsaðili að evrópsku rannsóknarverkefni sem nýlega var hrundið af stað og fjallar um miðlun á viðhorfi mannsins til náttúru, rýmisupplifunar og umhverfingar í sögu og samtíma. Möguleiki er fyrir MA-nemendum að tengjast þessu verkefni í gegnum Rannsóknastofuna. 

Sigrún Sigurðardóttir, menningarfræðingur,

lektor og fagstjóri hönnunarfræða

er umsjónarmaður Rannsóknarstofu í ljósmyndarannsóknum.

Netfang: sigruns [at] lhi.is

Rannsóknarstofa í myndmálsrannsóknum

Meginviðfangsefni er að safna saman og setja í sögulegt samhengi þann sjónræna arf sem finnst í íslenskum handíðum, handritum og prentuðu efni til notkunar í myndrænni framsetningu og grafískri hönnun. Sviðið nær yfir myndlýsingar, mynstur og skreytingar, notkun tákna og merkja, fjölbreytta flóru rúna og stafagerða úr útskurði, vefnaði, handskrifuðu og prentuðu efni allt frá 12 öld til dagsins í dag. Aðaláhersla er á prentað efni og tengsl þess og uppruna frá handíðum.

Með mikilli aukningu myndrænnar famsetningar í formi prentaðs efnis í kjölfar iðnbyltingarinnar, myndun þéttbýlis, sjálfstæðisbaráttu og stofnunar lýðveldis verður til jarðvegur fyrir það sem kallað er grafísk hönnun í dag. Við þessa rannsóknarstofu er tilurð íslenskra teiknara sem sérstakrar starfsgreinar skoðuð, þróun hennar og umbreytingu eftir síðari heimstyrjöld í hönnun á myndrænni framsetningu upplýsinga, þekkingar og áróður.

Viðfangsefni rannsóknarstofunar eru ótæmandi og tengjast hæglega persónulega áhugasviði hvers og eins. Þar eru færi til rannsókna í leturfræði, táknfræði, dagatala og annari framsetningu tímans, heilagri hlutfallafræði, pólitískum áróðri, kynjafræði, bókahönnun o.s.fr.v.

Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í grafískri hönnun

er umsjónarmaður Rannsóknarstofu í myndmálsrannsóknum.

Netfang: goddur [at] lhi.is

Rannsóknarstofa rýmis

Rýmismótun byggðar er einstæð hverju samfélagi. Rýmisskipan skapar ramma utan um samfélagið og hefur áhrif á allt daglegt líf borgaranna, hvort sem er friðhelgi heimilisins og smærri kvarða einkarýmis eða stærri kvarða borgar og landslags. 

Ólíkar forsendur liggja að baki því hvernig manngert umhverfi hefur þróast og mótast á hverjum stað og felast þær jafnt í samfélagi og umhverfisaðstæðum; annars vegar fagurfræðilegum, félagslegum, pólitískum og efnahagslegum þáttum og hins vegar landfræðilegum og veðurfarslegum þáttum. Allt eru þetta áhrifavaldar um það hvernig við tökum ákvarðanir um mótun umhverfis og jafnframt, hvernig við tökumst á um mótun og þróun nýrrar rýmismyndunar í samfélaginu. 

Í Rannsóknarstofu rýmis er rými kannað í mismunandi kvörðum og stærðargráðum manngerðs umhverfis og náttúru og rannsakað í samhengi félagslegrar iðju og vettvangs. Rýmislíkön og kerfislæg samfélagsbygging nútíma, fortíðar og framtíðar eru könnuð með gagnrýnu hugarfari svo úr verði nýr skilningur á samhengi þekkingar og staðar.

Viðfangsefni rannsóknarstofu rýmis eru víðfeðm og tækifæri gefst til að setja rýmishugsun í samhengi við aðkallandi viðfangsefni samtímans. Nemendum býðst möguleiki á að tengjast rannsóknar- og þróunarverkefnum sem spyrja spurninga um mótun manngerðs umhverfis, s.s. þverfaglegt þróunarverkefni Vatnavina um þróun heilsutendrar ferðaþjónustu með áherslu á nýtingu náttúrlauga.

Sigrún Birgisdóttir, arkitekt

deildarforseti hönnunar- og arkitektúrdeildar (LHÍ)

er umsjónarmaður Rannsóknarstofu rýmis

Netfang: sigrunbirgis [at] lhi.is

Rannsóknir og samstarf

Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands tekur virkan þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi. Deildin hefur gert tvíhliða samning við 47 háskóla í Evrópu á vegum Erasmus/Sókrates menntaáætlunarinnar auk þess að eiga samskipti við listaháskóla vestan hafs í gegnum styrktarkerfi Fulbright. Innan Nordplus er hönnunar og arkitektúrdeild þátttakandi í CIRRUS, samstarfsneti 21 hönnunarháskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum. Jafnframt er deildin virkur þátttakandi í EAAE (European Association of Architecture - samstarfsnet um 150 evrópskra arkitektaskóla), Cumulus samstarfsnet yfir 100 hönnunarháskóla víðsvegar um heiminn og  Nordic Academy of Architecture (NordArk), samstarfsnet 16 arktitektaháskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum. Samstarfið byggir á kennara- og nemendaskiptum auk annarra samvinnuverkefna. Þá hefur hönnunar- og arkitektúrdeild stofnað til fjölda samstarfsverkefna við aðrar háskóla og listastofnanir hér á landi.

  • Íslenskuþorpið
    Íslenskuþorpið er samstarfsverkefni HÍ, LHÍ, Háskóla Suður-Danmerkur og ICT (Swedish Interactive Institute). Íslenskuþorpið er nýsköpunarverkefni um nýja kennsluhætti fyrir málnema í íslensku sem öðru máli. Í þorpinu fá nemarnir þjálfun í að nota íslensku við daglegar aðstæður. Hannað var kennsluefni, umhverfi, viðmót, mörkun, heildarútlit, upplifun og aðstæður til þess að nemarnir geti lært með því að tala við öruggar aðstæður og jákvætt hugarfar. Í þorpinu taka þjónustustofnanir og fyrirtæki virkan þátt í kennslu og skapa þannig smækkaða mynd af bæjarlífi. Námsefnið, til nota innan og utan kennslustofunnar, er enn í þróun, sem og kennsluhættir. Hluti af verkefninu er gagnasöfnun sem nýtist til þróunar og með tímanum verður þorpið að vettvangi sem nýtist fólki utan háskólans sem vill læra íslensku og ferðamönnum sem eru áhugasamir um íslenska tungu.
  • Stefnumót við bændur
    Stefnumót hönnuða og bænda er nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki þar sem hönnun og rekjanleiki eru höfð að leiðarljósi. Nýnæmi verkefnisins felst í því að tefla saman einni elstu starfsstétt landsins, bændum, og einni yngstu starfstétt landsins, vöruhönnuðum. Verkefnið er samstarfsverkefni hönnunarnema Listaháskólans og bænda í heimaframleiðslu, í nánu samstarfi við Matís og fjölmargra sérfræðinga og ráðgjafa í matvælaframleiðslu. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði og Framleiðnisjóði landbúnaðarins.
  • Íslensk sjónabók
    Íslensk sjónabók er samansafn munsturteikninga byggða á handritum sem notuð voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Verkefnið var unnið af nemendum og kennurum á námsbraut í grafískri hönnun. Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gáfu út Íslenska sjónabók vorið 2009.
  • Mæna
    Mæna er ársrit um grafíska hönnun á Íslandi sem námsbraut í grafískri hönnun, hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gefur út í samstarfi við prentsmiðjuna Odda hf. og fjölda myndhöfunda, textahöfunda, þýðenda og annarra velunnara. Tímaritið kemur út einu sinni á ári og er gefið út á Hönnunarmars.
  • Reykjavíkurgötur
    Reykjavíkurgötur er samstarfsverkefni um greiningu og rannsókn almenningsrýma og götu-umhverfis í Reykjavík unnin af nemendum og kennurum á námsbraut í arkitektúr. Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gefur árlega út bók um götu sem tekin er fyrir í göturannsóknarverkefnum skólans.
  • Seyðisfjörður
    The Roots of Nordic Creativity, Masterclass.  Samstarfsverkefni KHIO - Oslo National Academy of the Arts og Listaháskóla Íslands fyrir meistaranema í hönnun í Bláu verksmiðjunni á Seyðisfirði. Nemendur frá Noregi, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi/Kína unnu að byggingu Svitahofs. Hönnun sett í samhengi við Shamanisma.
  • Nordic Virtual Worlds
    Námsbraut í fatahönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ er þáttakandi í Norrænu rannsóknarverkefni með það að markmiði að rannsaka hvernig lítil og meðalstór fyrirtæki geta nýtt sér sýndarveruleika í starfsemi sinni. Verkefnið er á vegum Stockholm School of Economics og er styrkt af NICE (Nordic Innovation Fund).
  • Samningur um samstarf vegna námskeiðs í myndlýsingum – Vatnsdæla á refli
    Listaháskóli Íslands (LHÍ)  og Jóhanna E. Pálmadóttir ,  f.h. Textílseturs Íslands:
    Nemendur á öðru ári í námsbraut í grafískri hönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ unnu að verkefni þar sem viðfangsefnið er að myndlýsa Vantsdælusögu fyrir refilsaum.
  • Staðbundin framleiðsla
    Nemendur á námsbraut í vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild vinna þróunarvinnu í samstarfi við valin fyrirtæki, þar sem framleiðsluaðferðum, framleiðslugetu, framleiðsluefnum, framleiðslumöguleikum o.s.frv. eru gerð ítarleg skil. Lögð er áhersla á að vinna út frá þeim möguleikum sem til staðar eru og skapa nýjum vörum sérstöðu með því að upprunatengja vöruna.
  • Staðbundin þróun matvæla
    Í samstarfi við Sveitarfélagið Hornafjörður, Ríki Vatnajökuls, Rannsóknarsetur HÍ á Höfn í Hornafirði, Skinney Þinganes o.fl.  unnu nemendur 3ja árs allra námsbrauta í hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ að þróun staðbundinna matvæla á Höfn í Hornafirði.
  • Samstarf við Icelandair
    Samstarfsverkefni Listaháskóla Íslands og Icelandair að hönnun móttökusvæðis á Keflavíkurflugvelli. Nemendur í vöruhönnun við hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ vinna að verkefni þar sem viðfangsefnið er endurhönnun (upplifunarhönnun) á  söluskrifstofu og móttöku í höfuðstöðvum Icelandair á Reykjavíkurflugvelli með upplifun viðskiptavina og starfsfólks í fyrirrúmi.
  • Sýningarstjórnun
    Samstarfsverkefni hönnunar- og arkitektúrdeildar Listaháskóla Íslands, Hönnunarsafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands um sýningargerð, sýningarhönnun og sýningarstjórnun.