Verkið er þrekverk og geta áhorfendur komið og farið að vild, miðapantanir eru óþarfar. Staðsetnings verks er óráðin og verður tilkynnt síðar

Hamur fortíðar springur utan af okkur með reglulegu millibili, yfirleitt óvænt, jafnvel þegar við stöndum á krossgötum. Þá opnast himnarnir og sturta okkur með sjaldgæfum en óþægilegum sannleik. Við erum bara „Ha? Var ég rasisti þegar ég var unglingur?“….. og þögnin er þrúgandi. Því við munum eftir fléttunum og flaksandi fubu-buxunum af feitu systur nágrannans sem við gengum í á hverjum degi því við kunnum ekki að vera hip án þess að stela úr annarra manna menningu (eða skápum). Og svo miklu, miklu fleira.

Er hægt að leiðrétta þetta einhvern veginn? Eða öll hin milljón mistökin sem þú vissir ekki að þú værir að gera? Svo ég tali nú ekki um alla glæpina sem þú framdir af yfirlögðu ráði.
Þú misstir af tækifærinu til að verða vönduð manneskja. Tussa. Er mögulegt að snúa við blaðinu? Er hægt að afgreiða það á skömmum tíma? Jafnvel á einum sólarhring? Að koma mér til manns hefur nú þegar tekið of langan tíma.
Ég hef 24 stundir til forða sál minni frá glötun með öllum tiltækum ráðum.
Staðsetning/dagskrá tilkynnt nánar á næstu dögum, fylgstu með.
-------
Eftir sex mánuði mun ég lesa þetta og hata mig.
Eftir eitt ár mun ég lesa þetta og sakna mín.
Eftir fimm ár mun ég lesa þetta og sakna ykkar.
Eftir tíu ár mun ég lesa þetta úr speisturninum mínum á meðan ég borða geimbeljuhamborgara
Því ég er sjálfhverf og kaldhæðin
Nostalgísk og dreymin
En aðallega vongóð.

Viðhorf Heklu til lífsins og listarinnar kristallast í eftirtöldum dægurlagatexta;

“Mér finnst allt svo ofboðslegt dúndur og æði,
ég hugsa mikið um standard og gæði,
mér finnst lífið eitt allsherjar djók.
Mér finnst engu einasta máli skipta hvort í blokkum sé öryrkjalyfta, bara ef ég fæ rettur og kók.
Mér er sama hvort í tafli lífsins ég missi peð eða hrók.”
- Eyfi, Stormsker, sultuhundurinn ÓRG og Hekla Elísabet