Ydda arkitektar eru Hildur Ýr Ottósdóttir og Hjördís Sóley Sigurðardóttir. Þær útskrifuðust báðar með B.A. próf í arkitektúr frá Listaháskólanum, fyrir 10 og 12 árum, en þekktust lítið þegar þær byrjuðu að vinna saman. „Það má segja að Ydda hafi byrjað með blindu stefnumóti sem endaði í farsælu hjónabandi.“ Verkefni Yddu eru af ýmsum stærðargráðum, frá innréttingum og einbýlishúsum yfir í fjölbýlishús og deiliskipulag. „Við vinnum alltaf þannig að við erum að horfa á hlutina í stóru samhengi og líka í smáatriðin.“

 

Hvað er arkitektúr?
Rými sem hreyfa við manni, hvort sem það er í stóru samhengi eða litlu. Arkitektúr getur breytt hegðun og haft svo mikil áhrif á það hvernig við upplifum umhverfi okkar. Manneskjan er alltaf útgangspunkturinn, mælikvarðinn, aðalatriðið.

 

Hildur og Hjördís vissu af hvor annarri í Listaháskólanum en þekktust ekki mikið áður en þær stofnuðu Yddu. Eftir að Hjördís sneri aftur heim úr fullnaðarnámi í arkitektúr frá TU Delft í Hollandi fann hún fljótt að hún vildi frekar vinna sjálfstætt en á stofu hjá öðrum og hafði þá samband við Hildi sem var þá að vinna hjá Jean-Paul Jaccaud arkitektum í Genf, en hún lauk sínu fullnaðarnámi frá EPFL í Lausane í Sviss. Hildur flutti svo heim í janúar 2013 og þá var Ydda formlega stofnuð.
Fyrsta sameiginlega verkefnið okkar var þátttaka í hönnunarsamkeppni um að byggja yfir fornminjarnar á Stöng í Þjórsárdal og við fengum Kristinn E. Hrafnsson til að vinna með okkur. Þetta var mjög skemmtileg samvinna. Það voru kostir og gallar faldir í að þekkjast ekki. Við erum ólíkar og það tók okkur tíma að læra inn á styrkleika hvor annarar. Þetta er svolítið eins og að fara inn í hjónaband, Þetta er mikil samvinna og þær ákvarðanir sem þarf að taka eru oft mjög huglægar. Það voru tímar þar sem samstarfið var erfitt, á meðan við vorum að slípa það til og læra inn á hvor aðra en við erum mjög ánægðar í dag. Það er styrkleiki falinn í því hvað við erum ólíkar og hvað við getum lært mikið af hvor annarri. Samstarfið virkar líka vegna þess að við höfum sömu markmið, sama metnað og sýn.

 

Hvernig fannst ykkur að læra við Listaháskólann?
Það var mjög gott að byrja námið á skapandi nótum og fara síðan í tækniháskóla í meistara- og fullnaðarnám. Kennararnir í LHÍ voru bæði góðir og ólíkir og gott að kynnast samfélaginu hér á Íslandi og starfandi arkitektum, verkefnin í skólanum voru fjölbreytt og lærdómsrík. Þau snerust um að læra á landið, bæði hvað varðar veður, aðstæður og byggingarreglugerðir. Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar hannað er fyrir Ísland, við þurfum aðeins stærri íbúðir en fólk á meginlandi Evrópu til dæmis því veðráttan gerir það að við dveljum mikið inni. Við þurfum líka að vinna sérstaklega með skjól og skammdegi, svo eitthvað sé nefnt.

 

Einnig er ekki síður þroskandi að prófa að búa í stórborg, það var alveg jafnmikill skóli og skólinn sjálfur. Það er ýmislegt, eins og þétting byggðar, sem maður gæti ekki skilið almennilega nema vegna þess að maður hefur búið í stærri borg.

Hvernig var svo að fara út í meira nám í faginu eftir Listaháskólann?
Hildur segir það hafa haft mikið að segja að fá að hitta arkitekana sem hún leit upp til í eigin persónu. „Að fara í tíma til þeirra og jafnvel heimsækja þá var mjög gefandi. Svo var einnig mjög lærdómsríkt að koma úr svona listrænum skóla eins og Listaháskólinn er og fara í mjög tæknilegan skóla. Það var mjög góð blanda en það var ýmislegt sem krakkarnir í bekknum mínum í Sviss lærðu af mér og svo auðvitað öfugt. Einnig var það dýrmæt og góð reynsla að hafa starfað í Sviss áður en ég kom heim. “ Hjördís bætir því við að það sé líka góð reynsla að búa erlendis. „Það er mikilvægt að skoða góðan arkitektúr sem er auðvitað meira af á meginlandi Evrópu en hér. Einnig er ekki síður þroskandi að prófa að búa í stórborg, það var alveg jafnmikill skóli og skólinn sjálfur. Það er ýmislegt, eins og þétting byggðar, sem maður gæti ekki skilið almennilega nema vegna þess að maður hefur búið í stærri borg.“

 

Skarðshlíð, óbyggt hverfi við Vellina í Hafnarfirði, er eitt af stóru verkefnum Yddu þessa dagana. Getið þið sagt mér aðeins frá því?
Það var búið að hanna deiliskipulagið og leggja götur og setja upp ljósastaura þegar við fengum verkefnið í hendurnar. Fyrir hrun var kannski meiri áhersla og eftirsókn í stærri eignir. Við vorum fengnar til þess að koma með nýja hugmyndafræði inn. Nú í dag er meiri krafa um minni eignir og fjölbýlishús en var hér fyrir hrun. Deiliskipulagið var þannig að það var ekki nægilega sérhannað fyrir þennan stað með tilliti til landslags og veðurs. Hverfið liggur á hæð svo við leggjum til að nýta hana, gera þakgarða, stuðla að því að allir fái suðurgarð og útsýni og að það skapist skjól í hverfinu. Þannig reynum við að nýta sem best þau gæði sem staðurinn býður upp á. 

Við vildum líka hanna hverfi fyrir framtíðina. Við breyttum götunum í vistgötur, sem eru bæði grænni og með hægari umferð. Þá geta börnin leikið sér á götunni á daginn þegar engin umferð er og við sendum skýr skilaboð til akandi fólks að inni í hverfinu sé það ekki í forgangi. Við unnum með umhverfissálfræðingum og landslagsarkitekt við gerð vistgatnanna en það er mjög áhugavert hvað litlu hlutirnir geta haft mikil áhrif á lífið í hverfinu svo sem breidd gatna og gróður. Svo leggjum við til að fólk verði ekki með sorptunnur við hvert hús heldur verði djúpgámar á nokkrum stöðum. Það þýðir að fólk þarf að flokka sorp sitt og ganga svo með það kannski 30 metra að næsta djúpgámi. Þegar við kynntum þetta voru skiptar skoðanir á þessu, sumum fannst þetta frábært en öðrum fannst þetta alveg ótækt. En við erum ekki að byggja til næstu fimm ára, heldur til framtíðar og verðum að taka tillit til þess og þarna er kominn hvati fyrir fólk að breyta hegðun sinni aðeins.

 

Hvar standið þið hvað varðar vistvænan arkitektúr?
Við tölum oft um að við séum að búa til vistvæna búsetu fyrir fólk. Það er ekki nóg að haka bara í ákveðna reiti svo að byggingin teljist vistvæn, heldur er mikilvægt að búa til hvata fyrir fólk að lifa vistvænt, að umhverfið sem við berum ábyrgð á að hanna móti líf fólks á jákvæðan hátt. En við sjáum að viðhorf fólks er að breytast og yngri kynslóðunum er mjög umhugað um umhverfið. Enda ólust þær upp við allt aðrar aðstæður en þær sem á undan komu.

 

Tillaga Yddu að nýjum stúdentagörðum við hlið Gamla garðs hlaut nýverið fyrstu verðlaun í samkeppni. Gagnrýnisraddir um að byggja á þessum stað hafa verið háværar síðan samkeppninni lauk og meðal annars hefur Minjavernd gert athugasemdir.
Þarna er spurning, eins og alltaf, um heildarsýn. Guðjón Samúelsson var með hugmynd á sínum tíma um hvernig þetta svæði ætti að vera og svo komu Alvar og Elissa Aalto með hugmynd sem var líka mjög skemmtileg. Síðan er þetta eins og þetta er í dag. Auðvitað væri best að taka fyrir allt Háskólasvæðið og skoða hvernig væri best að þróa það miðað við stöðuna í dag en í staðinn er einblínt um of á einstaka lóðir. Minjavernd er að gagnrýna þessi áform um að byggja á þessari lóð, en fyrir þeim skiptir ekki öllu máli hvernig byggingin er, heldur er það staðsetningin sem fer fyrir brjóstið á þeim.

Það þarf að hafa í huga að við erum bara að þróa borgina, bæta inn og byggja, og við höfum ekki sömu forsendur og þegar Guðjón Samúelsson var að setja fram sína sýn. Með þessari uppbyggingu leggjum við áherslu á að styrkja umhverfið og að skapa góða búsetu fyrir stúdenta hvort sem er á Gamla Garði eða í nýbyggingunum. Byggingarnar skapa skjól og betri hljóðvist, sameiginlegur garður tengir allar byggingar saman. Við erum að vinna í útliti á byggingunum, verkefnið er þessa dagana í deiliskipulagsferli og við sjáum hvað verður.

Það er gott að fólk hafi skoðun á þessu en við stöndum með okkar tillögu heilshugar. Við lögðum okkur fram við að gera umhverfið og garðana sjálfa manneskjulegri og hvetja til samskipta en þunglyndi meðal nemenda við HÍ er mikið og margir upplifa sig mög eina. Við teljum að með góðum almennings- og einkarýmum og úthugsuðu samspili þeirra sé hægt að hafa jákvæð áhrif á upplifun nemanna.

 

Hvað er skemmtilegast við arkitektúr?
Þetta er allt skemmtilegt! Nema kannski samningar. En allt frá hugmyndaferlinu og yfir í lítil smáatriði eins og hvernig efni og form mætast í horni er áhugavert og gaman. Maður þarf samt að hafa þolinmæði. Mörg þessara verkefna eru langtímaverkefni og þá þarf maður að finna taktinn og gleðina í hverju stigi verkefnisins. Þá er sérstaklega gott að vera tvær saman, að eiga samtal um hlutina, öll góð verkefni þurfa sitt ferli og andrými.

 

En eiga þær einhver góð ráð fyrir verðandi eða núverandi arkitektúrnema?
Það er mjög mikilvægt að treysta sínu innsæi. Maður er oft að vinna hörðum höndum að verkefni og ekkert gerist en svo allt í einu kemur lausnin yfir mann og það getur gerst þegar maður er að gera eitthvað allt annað. Og það má stundum hafa hlutina svona „af því bara“. Mikið af skapandi vinnu snýst bara um tilfinningu. Njóttu þess að vinna af innsæi og ef eitthvað hreyfir við þér þá er það frábært. Þetta blandast allt saman, akitektar stúdera veðráttu og landslag og aðra praktíska þætti en svo bætist þetta við. Það er líka mikilvægt að vera gagnrýninn og fylgjast með umhverfi sínu, maður lærir svo margt af því. Og ekki bara treysta á tæknina, það er mjög gott að vera duglegur að skissa í höndunum og vinna í módelum.

 

Í stóra samhenginu þá er ábyrgð okkar mikil, bæði gagnvart jörðinni og gagnvart komandi kynslóðum, það er allt annar heimur sem yngri kynslóðirnar eru að fara að taka við. Það er ekki lengur spurning um hvort maður vilji hanna með umhverfið í huga heldur verðum við að taka þessa ábyrgð. 

Höfuðborgarsvæðið virðist vera að breytast mjög hratt þessi misserin, eru þetta spennandi tímar fyrir arkitekta?
Það er mjög mikill hraði á öllu núna en það er mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur hvernig borg við viljum byggja, að heildarsýnin sé góð. Borg er ekki borg ef hún samanstendur bara af hótelum. Það þarf gott sambland af búsetu, verslun, veitingastöðum, hótelum og fleiru til að borgin sé lifandi. Mikilvægt er að huga einnig að rýmunum á milli húsanna og að skapa dvalarsvæði inn í byggðu umhverfi.

Í stóra samhenginu þá er ábyrgð okkar mikil, bæði gagnvart jörðinni og gagnvart komandi kynslóðum, það er allt annar heimur sem yngri kynslóðirnar eru að fara að taka við. Það er ekki lengur spurning um hvort maður vilji hanna með umhverfið í huga heldur verðum við að taka þessa ábyrgð.