Vakin er athygli á tónleikum Caput-hópsins næsta sunnudag, 18. febrúar klukkan 15:15 þar sem flutt verða verk eftir ung tónskáld sem ýmist eru í námi við tónlistardeild Listaháskóla Íslands eða hafa lokið þaðan námi á undanförnum árum.  Tónskáldin sem eiga verk á tónleikunum eru Ásbjörg Jónsdóttir, Birgit Djupedal, Haukur Þór Harðarson, Kjartan Holm, Þórarinn Guðnason og Örnólfur Eldon. 

Einsöngvari á tónleikunum er söngkonan  Sophie Fetokaki en stjórnandi er Guðni Franzson.

Verkin sem flutt verða eru öll samin á síðustu einu til tveimur árum. Ásbjörg Jónsdóttir skrifaði “Diagram diaries & other stories” og Birgit Djupedal samdi “Hälftan av alla som finns” vorið 2017 en þær stunda báðar nám í tónsmíðum við Listaháskóla Íslands. Verkin unnu þær fyrir vinnustofu Caput í Listaháskólanum síðastliðið vor þar sem tónskáldin skrifuðu verk fyrir nokkuð stóran, blandaðan hóp hljóðfæraleikar. Tónverk þeirra beggja væri hægt að kalla dramatísk þar sem þau segja sögu eða tengjast ákveðnum viðburðum og hugsjónum svo sem feminískri baráttu.

Þórarinn Guðnason skrifaði tónverkið “Stacks” og Kjartan Holm verkið “Læri þitt lekur” en báðir unnu verk sín sem lokaverkefni frá tónsmíðadeild Listaháskólans, Þórarinn vorið 2016 en Kjartan vorið 2017. Þeirra verk eru fyrir strengjahóp, verk Þórarins að viðbættu píanó en Kjartan bætir slagverki við strengina. Þórarinn og Kjartan eru báðir þekktir úr heimi rock tónlistar; Þórarinn úr Agent Fresco en Kjartan hefur leikið með mörgum hljómsveitum þ.m. Sigur Rós. Óhætt er að segja að í þessum verkum sýni þeir á sér aðra og mildari hlið en við eigum að venjast í rockinu. Lýrísk og falleg músík en þó ekki laus við átök.

Örnólfur Eldon stundar tónsmíðanám í Hannover í Þýskalandi, hann skrifaði nýlega verkið “Letters” fyrir flautu og enskt horn, dúett sem hann vann í vinnubúðum með Ensemble Musikfabrik. Verkið er spennandi tilraunakennd könnun á hljóðheimi tréblásturshljóðfæranna þar sem höfundur fetar ótroðnar slóðir. Örnólfur hefur lagt stund á margvíslegan hljóðfæraleik með áherslu á gítar og píanó en einnig söng. Hann tók m.a. þátt í uppfærslu á óperunni Ur_ eftir Önnu Þorvaldsdóttur 2015/16

Haukur Þór Harðarson er sennilega reyndasta skrifandi tónskáldið í hópnum. Verk hans hafa verið flutt m.a. af Asko/Schönberg og Nieuw Ensemble í Hollandi og mörgum öðrum Evrópskum hópum. Haukur Þór er nú búsettur í Berlín. Hann skrifaði verkið “Days of Silence” árið 2017, míkrótóna tónsmíð fyrir söngrödd og fá hljóðfæri þar sem hljóðið kemur og fer í augnabliki rýmisins sem andar.

Söngkonan Sophie Fetokaki flytur “Days of Silence” með Caput á 15:15 tónleikum í Norræna húsinu. Hún er núna búsett í Bretalndi þar sem hún starfar sem söngkona fjölbreyttra tónlistarstíla en einnig sem rithöfundur og dramaturg. Sophie hefur m.a. komið fram með Asko/Schönberg Ensemble og Los Angeles Pilharmonic en hún vinnur um þessar mundir m.a. með Ragnari Kjartanssyni og flytur verkið Sky in a Room í Cardiff auk þess að vinna að uppsetningu Quad eftir Samuel Beckett í yfirgefinni myllu í Huddersfield.

Miðasala er við innganginn.
Miðaverð er 2000 kr. en 1000 kr. fyrir eldri borgara, öryrkja og námsmenn.