Garðar Eyjólfsson og Thomas Pausz taka við hlutverki fagstjóra í meistarnámi í hönnun
 
Garðar lauk B.A gráðu í vöruhönnun frá Central Saint Martins í London og M.A í samhengisfræðilegri hönnun frá Design Academy Eindhoven. Nálgun hans byggir á að skoða efni og umbreytingu í staðbundnu samhengi, að samtengja efni og abstrakt hugmyndir svo sem orku og menningu. Hann byggir á þekkingu hagfræðinnar og rannsókna á sviði sjálfbærni og sækist eftir hinu ljóðræna sambandi milli efnis, nytja og mannlegra athafna.
 
Thomas starfar þvert á fagsvið bæði í hönnun og kennslu. Eftir að hafa numið heimspeki í París lauk hann meistaraprófi við deildina Design Products í Royal College of Arts og hefur síðan starfað í London, Berlín og Reykjavík. Thomas setur fram nýstárlegar hugmyndir um framleiðsluferla, hannar frásagnir og listræna muni sem byggja á gagnrýnni kortlagningu samtíma kerfa.
 
Í meistaranámi í hönnun er fjallað um ólíka veruleika og valkosti og sjónum beint að lifandi sambandi þess hlutbundna og þess óhlutbundna. Í náminu er unnið markvisst með sérkenni Íslands í því skyni að skilja umheiminn og ólíkar tengingar milli hins staðbundna og þess alþjóðlega. Meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands byggir á tilraunakenndum vinnustofum, nánd við viðfangsefni og persónulegri leiðsögn. Yrkisefni ímyndunaraflins og raunveruleg og aðkallandi verkefni í samtímanum eru höfð að leiðarljósi þar sem viðfangsefni námsins snúa að hönnun annarra veruleika, áður óþekktra valkosta og framtíðarmöguleika. 
 
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu meistarnámsins.
 
Við bjóðum þá Garðar og Thomas velkomna til þessara nýju starfa við hönnunar- og arkitektúrdeild.