Gestkvæmt hefur verið hjá RíT — Rannsóknarstofu í tónlist — upp á síðkastið. Dagana 21.-23. apríl stóð RíT í samvinnu við tónleikaröðina Hljóðön fyrir málstofu um alþjóðlegu tónlistarsamtökin Wandelweiser í tilefni af komu Stefan Thut, meðlims Wandelweiser, til landsins. Í kjölfarið fóru fram tónleikar á vegum Hljóðanar í Hafnarborg með þátttöku kennara og nemenda tónlistardeildar Listaháskóla Íslands.

Í byrjun maí kom svo norski tónlistarhópurinn Lemur í heimsókn og bauð upp á vinnustofu í spunaaðferðum sem fór fram í Mengi. Í kjölfarið tóku nemendur þátt í tónleikum hópsins í Hörpu í samvinnu við tónlistarhópinn Caput. Jafnframt héldu meðlimir hópsins þeir Michael Duch bassaleikari og Bjørnar Habbestad flautuleikari fyrirlestra á vegum tónlistardeildar; sá fyrrnefndi um breska tónskáldið Cornelius Cardew og áhrif hans á tilraunatónlist, sá síðarnefndi fjallaði um ítalska tónskáldið Luigi Nono og tónsmíðaaðferðir hans.