Nú hefur dómnefnd einna virtustu hönnunarverðlaunanna í heimi, Red Dot, kveðið upp úrskurð sinn um vinningshafa í flokki upplýsingahönnunar (Red Dot Award: Communication Design). Shu Yi, sem lauk meistaranámi í hönnun við Listaháskóla Íslands árið 2016, var ein af fimm vinningshöfum í þessum flokki. Shu Yi er upplýsingahönnuður og myndlistarkona frá Bejing í Kína. Hún hefur unnið og starfað í Kína, Bretlandi og á Íslandi. Hún tók þátt í að stofna stúdíóið Íkorninn - Squirrel ehf sem sérhæfir sig í grafískri upplýsingahönnun, notendavænni hönnun og vöruhönnun.

Verkið sem Shu hlýtur Red Dot verðlaunin fyrir nefnist Gola og sækir innblástur sinn í íslenskt veður. Það sýnir upplýsingar um veðurspá um allan heim, í rauntíma.

Verðlaunin hlaut Shu einmitt fyrir verk sem byggir á útskriftarverkefni hennar sem skoða má hér en Lóa Auðunsdóttir, kennari við braut grafískrar hönnunar, leiðbeindi Shu á því stigi. Verkið sem Shu hlýtur Red Dot verðlaunin fyrir nefnist Gola og sækir innblástur sinn í íslenskt veður. Það sýnir upplýsingar um veðurspá um allan heim, í rauntíma. Úrvinnsla Shu á þessum upplýsingum hefur það að markmiði að draga úr streitu og kvíða, auk þess sem um rannsókn á lögmálum sjónrænnar miðlunar er að ræða, þar sem reynt er að samþætta upplýsingar og umhverfi.

Verðlaunaafhendingin, Red Dot Award: Communication Design 2017 fer fram 27. október næstkomandi í Konzerthaus Berlin í Þýskalandi en verkið Gola verður til sýnis á sýningu verðlaunahafa, "Design on Stage". Ennfremur verður Gola til sýnis í alþjóðlegri árbók upplýsingahönnunar (International Yearbook Communication Design 2017/2018). Árbókin kemur út 14. nóvember 2017 en þar er að finna umfjallanir um helstu nýjungar á sviði upplýsingahönnunar í heiminum.

Red Dot verðlaunin eru veitt í þremur flokkum, vöruhönnun (Red Dot Award: Product Design), upplýsingahönnun (Red Dot Award: Communication Design) og fyrir hönnun á hugmyndastigi (Red Dot Award: Design Concept). Verðlaunin eru á snærum Design Zentrum Nordrhein Westfalen og eru á meðal stærstu hönnunarsamkeppna í heimi. Árið 1955 valdi fyrsta dómnefnd verðlaunanna bestu hönnun þess árs en á tíunda áratugnum tók Dr. Peter Zec við stjórn verðlaunanna og hefur þróað vörumerkið æ síðan. Frekari upplýsingar má nálgast á www.red-dot.org.

Fréttatilkynningu Red Dot má skoða í heild sinni hér.