Listaháskólinn hefur fengið styrk að upphæð 2.870.000 kr til kaupa á rannsóknarinnviðum á fræðasviði lista.
 
Um er að ræða vél- og hugbúnað sem hýsa mun rannsóknargögn á sviði lista og hönnunar, og geta þau verið sjónræn, hljóðræn eða bundin í texta. Innviðirnir munu nýtast til að safna frumheimildum á sviði lista og hönnunar á kerfisbundinn hátt, skipuleggja þær og flokka í mótað kerfi, varðveita þær á stafrænan hátt og veita rannsakendum aðgengi að þeim.
 
Þannig mun verða til rafrænt og leitarbært gagnasafn á fræðasviði lista, en hvergi á landinu er til heildstætt gagnasafn af þessu tagi.
 
Búnaðurinn mun umbylta tæknilegri umgjörð þeirra rannsókna sem nú þegar eru stundaðar við skólann, en hann mun veita rannsakendum möguleika á að skipuleggja gögn og aðrar frumheimildir á þann hátt sem nauðsynlegt er til að greining, úrvinnsla og þekkingarsköpun geti átt sér stað. 
 
Búnaðurinn verður innleiddur á vorönn 2018 og munu starfsmenn upplýsingaþjónustu og rannsóknaþjónustu leiða verkefnið, í nánu samstarfi við akademíska starfsmenn.