Kokkurinn Viktoría Elíasdóttir og listamaðurinn Ólafur Elíasson munu koma með tilraunaeldhús sitt, SOE Kitchen 101 til Íslands, og slá upp veislu í Marshallhúsinu 11. ágúst - 31. október. Listaháskólinn mun taka þátt í þessu hlaðborði matar og viðburða. Nemendur og starfsfólk munu vera með viðburði, uppákomur, gjörninga og ýmislegt annað á tímabilinu og taka þannig þátt í því samfélagi sem er að verða til í Marshallhúsinu. 

Hinn 11. ágúst opna kokkurinn Victoría Elíasdóttir og bróðir hennar, listamaðurinn Ólafur Elíasson, tímabundið rými helgað matargerðarlist á Marshall Restaurant + Bar, Grandagarði 20. Veitingastaðurinn verður rekinn í ákveðinn tíma og mun bjóða upp á bæði hádegisverð og kvöldverð í anda Eldhúss Studio Olafur Eliasson (SOE) í Berlín.

Verkefnið mun færa Eldhús SOE frá Berlín til Reykjavíkur og þannig skapast rými til eldamennsku, hugsunar, til tilraunastarfsemi í matagerðarlist og möguleiki til samvinnu með litlum fyrirvara, í nánum tengslum við íslenskt umhverfi. Skapað verður einstakt andrúmsloft þar sem verk Ólafs Elíassonar munu prýða veitingastaðinn sem er á jarðhæð vinnustofu hans í Marshallhúsinu.

Victoria Elíasdóttir og teymið í Eldhúsi SOE munu bjóða gestum til sætis við langborð til að  njóta heilsusamlegs matar og samræðu – ekki ósvipað og við hádegismatinn sem framreiddur er á degi hverjum handa teymi hundrað karla og kvenna sem starfa í stúdíóinu í Berlín.

Victoria tekur við þessu verkefni eftir að hafa starfað við góðan orðstír sem yfirkokkur á hinum rómaða veitingastað Dóttir í Berlín. Hún mun ásamt SOE-eldhústeyminu útbúa sérstakan matseðil sem sameinar hráefni úr heimabyggð og uppskriftir sem notið hafa vinsælda hjá teyminu í Berlín. Eldhús SOE í Berlín framreiðir að jafnaði grænmetismáltíðir úr lífrænt ræktuðu hráefni, en í Marshallhúsinu verður boðið upp á ferskt sjávarfang, enda er veitingastaðurinn einkar vel staðsettur til þess þar sem hann situr á hafnarbakkanum. Veitingastaðurinn mun bjóða upp á ákveðna máltíð í hádeginu og matseðil að kvöldi til.

Á tilteknum kvöldum verður gestum boðið að dvelja áram eftir kvöldmat og taka þátt í viðburðum skipulögðum af Stúdíói Ólafs Elíassonar í samvinnu við i8 gallerí, Mengi og aðra heimamenn. Þetta verða viðburðir á borð við smátónleika, ljóðalestur, flutning á raftónlist, jazz eða söng. Einnig verða í boði gjörningar, spjall við listamenn, tónskáld, heimspekinga, félagsfræðinga og matreiðslumenn, auk þess sem skipulagðir verða viðburðir sérstaklega ætlaðir börnum.