Stofnuð hefur verið ný alþjóðleg samtímadansbraut, Contemporary Dance Practices, við sviðslistadeild Listaháskóla Íslands.
 
  Opið er fyrir umsóknir  22. nóvember - 22. janúar
 
 
Inntökuprufur fara fram í Stokkhólmi, Berlín og Reykjavík. Í inntökuferlinu velur umsækjandi hvar hann/hún vill mæta í prufur.
 
Danscentrum Stockholm, www.danscentrumstockholm.se, 14. - 15. febrúar 2018
Tanzfabrik Berlin 17. -18. febrúar 2018
Listaháskóli Íslands, Austurstræti 22a, 10. - 11. mars 2018
 
 “Við teljum að með því að bjóða upp á alþjóðlegt nám í samtímadansi séum við að sýna frumkvæði og opna á tækifæri fyrir íslenska dansnemendur til að komast í betra samtal- og setja sig í samhengi við alþjóðlegt starfsumhverfi í dansi. Við munum bjóða upp á einstaklingsmiðað nám í dansi með færustu kennurum og listamönnum víðsvegar úr heiminum. Við veitum nemendum okkar tækifæri til að ferðast í styttri ferðir erlendis og taka fimmtu önnina sína í erlendum samstarfsskólum eða velja starfsnám hjá færum danshöfundum eða danskompaníum. Það eykur enn frekar á víðsýni nemenda og færir þeim tækifæri til að auka á  tengslanet sín og stimpla sig inn í alþjóðlega danssenu líkt og nemendur okkar hafa nú þegar verið að gera. En þeir hafa verið duglegir að ferðast og skapa sér tækifæri víðsvegar um heiminn. Við teljum að þessi breyting á brautinni eigi með tímanum eftir að hafa mjög jákvæð áhrfi á íslenskt danssamfélag”.
Sveinbjörg Þórhallsdóttir, fagstjóri alþjóðlegrar samtímadansbrautar við sviðslistadeild LHÍ.
 
Alþjóðleg samtímadansbraut BA hefur það að markmiði að mennta danslistamenn og konur sem hafa sterka listræna sýn og getu til að viðhalda starfsferli í hinum alþjóðlega heimi samtímadansins eða til áframhaldandi náms. Hið nána samstarf við samtímadanssenuna í Reykjavík skapar fullkominn vettvang fyrir dýnamískt og kraftmikið lærdómsferli þar sem nemandinn fær bæði innblástur og er ögrað á tæknilegan, samfélagslegan, sem og listrænan hátt. Nemendur fá tækifæri til að rannsaka og þróa persónulega nálgun á aðferðir kóreógrafíu, fræða, tækni, sviðsetningu og framleiðslu á samtímadansverkum.