Ólöf Nordal, dósent við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, var á nýársdag sæmd heiðursmerki hinnar Íslensku Fálkaorðu af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Riddarakrossinn hlaut hún fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar en alls hlutu 12 Íslendingar orðuna við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Ólöf Nordal bjó lengi og starfaði í Bandaríkjunum þar sem hún nam við Cranbrook listaakademíuna í Michigan og Yale háskólann í Connecticut.

Ólöf hefur unnið með arfinn, söguna og minni þjóðarinnar í verkum sínum á gagnrýninn og greinandi hátt. Listrannsóknir hennar beinast að sjálfsmynd þjóðar á eftir-nýlendutímum, uppruna og endurspeglun þjóðsagnaminna í samtímanum og brotinu sem spegli inn í fortíðina. Hefur hún unnið fjölda verka í almannarými, gert skúlptúra, unnið með 3D kvikun, ljósmyndun og innsetningar, auk þverfaglegrar vinnu með arkitektum, tónskáldum og leikhúsfólki.

Ólöf hefur starfað sem dósent við Listaháskóla Íslands frá 2016. Starfsfólk og nemendur skólans óska Ólöfu innilega til hamingju með þessa merku og verðskulduðu viðurkenningu.

Frá vinstri: Forseti Íslands, forsetafrú, Halldóra Björnsdóttir, Sigfús Kristinsson, Haukur Ágústsson, Vilborg Oddsdóttir, Sigþrúður Guðmundsdóttir, Álfrún Gunnlaugsdóttir, Brynhildur Guðjónsdóttir, Gunnar V. Andrésson, Ólafur Dýrmundsson, Lárus Blöndal, Ólöf Nordal og Albert Albertsson.