Tónlistarhátíðin New Music for Strings fer fram í fyrsta sinn í Reykjavík dagana 20. - 25. ágúst næstkomandi með fjölbreyttu og spennandi tónleikahaldi, fyrirlestrum og vinnustofum.

Hátíðin, sem fyrst var haldin árið 2016 og þá í Aarhus í Danmörku, hefur það að leiðarljósi að efna til samstarfs og samtals strengjaleikara, fræðimanna og tónskálda frá Bandaríkjunum og Norðurlöndunum en listrænn stjórnandi hátíðarinnar er danski fiðluleikarinn og tónskáldið Anne Sophie Anderson

Stjórn hátíðarinnar skipa m.a. tveir af meðlimum hins heimsfræga Emerson-strengjakvartetts, aðrir listrænir stjórnendur eru bandaríska tónskáldið David Cutright og fiðluleikarinn Gróa Margrét Valdimarsdóttir sem heldur utan um skipulag hérlendis ásamt Þórunni Völu Valdimarsdóttur, söngkonu og Júlíu Mogensen, sellóleikara.

Tónlistardeild LHÍ tekur þátt í tónlistarhátíðinni en hér verður boðið upp á áhugaverða fyrirlestra og vinnustofur. Eugene Drucker, fyrsti fiðluleikari Emerson-strengjakvartettsins og tónskáld heldur masterklass fyrir strengjaleikara, kínverska tónskáldið og raddlistakonan Du Yun, sem hlaut Pulitzer-verðlaunin 2017 fyrir óperu sína Angel's Bone, býður upp á vinnusmiðju í spuna auk þess sem bandaríski tónlistarfræðingurinn Judy Lockhead og fiðluleikarinn og tónskáldið Mari Kimura bjóða upp á hádegisfyrirlestur og efnt verður til vinnusmiðju með tónsmíðanemum á mastersstigi. Ókeypis er á alla viðburðina í LHÍ en þeir eru sem hér segir:

  • 22. ágúst kl.12:15: Fyrirlestur Judy Lockhead: "Many folks, many musics: American classical music in the 20th and 21st centuries"Flyglasalur, stofa 630, Skipholti 31. 
  • 23. ágúst kl. 09:30 - 11:30 og 13:30 - 15:00: Vinnusmiðja í spuna með Du Yun. Flyglasalur, stofa 630, Skipholti 31. 
  • 23. ágúst kl. 12:15: Fyrirlestur Mari Kimura: "Interactive systems, motion sensors, and subharmonics". Flyglasalur, stofa 630, Skipholti 31. 
  • 24. ágúst kl. 09:00: Vinnusmiðja fyrir tónsmíðanema á mastersstigi. Parhelion trio, Anne Sophie Andersen, Patrick Yim, Alicia Valoti, Júlía Mogensen. 
  • 24. ágúst kl 16:00 - 18:00: Masterklass með Eugene Drucker. Flyglasalur, stofa 630, Skipholti 31. 

Tónleikar á hátíðinni New Music for Strings verða haldnir í Mengi, Hörpu og í Veröld - húsi Vigdísar, en nánar má fræðast um þessa áhugaverðu hátíð á heimasíðu hennar.