Tónlistarhátíðin Sælugaukur er haldin í fyrsta sinn í ár af frumkvæði nemenda við tónlistardeild Listaháskólans.
 
Sælugaukur er ný tónlistarhátíð í Skálholti sem fer fram helgina 29. júní - 2. júlí.
Flytjendur og tónskáld Sælugauks munu bjóða upp á fjölbreytta tónleika þar sem lögð verður áhersla á íslenska tónlist og frumflutning nýrra verka í bland við klassík. Á tónlistarhátíðinni skapast vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk til að koma fram og fá tækifæri til að flytja tónlistina sína, njóta hljómburðar kirkjunnar og menningararfs Skálholts.
 
Verk eftir þekkt tónskáld eins og J.S. Bach, W.A. Mozart, M. Ravel og Þorkel Sigurbjörnsson verða flutt en spennandi tónverk eftir nýskáld landsins verða líka í fyrirrúmi.
 
Allir tónlistarmenn og aðstandendur gefa vinnu sína við hátíðina en gestir eru hvattir til að veita frjáls styrktarframlög sem renna í Verndarsjóð Skálholtsdómkirkju til að fjármagna viðgerðir á gluggum kirkjunnar sem nú liggja undir skemmdum.
 
Viðburðir hátíðarinnar eru ókeypis og opnir öllum.
 
Dagskrá hátíðarinnar má nálgast á www.facebook.com/saelugaukur.