Listasafn ASÍ kallaði nýverið eftir tillögum frá myndlistarmönnum vegna innkaupa fyrir safnið og sýningahalds haustið 2017. Það bárust tillögur frá 55 aðilum að þessu sinni, margar í mjög háum gæðaflokki.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-18, sem í eiga sæti sýningarstjórarnir Dorothée Kirch, Heiðar Kári Rannversson og forstöðumaður safnsins Elísabet Gunnarsdóttir, kom saman 18. maí s.l. og fór yfir tillögurnar sem bárust. Ákveðið var að kaupa verk af Sigurði Guðjónssyni, aðjúnkt við myndlistardeild Listaháskólans og myndlistarmanni, að þessu sinni og bjóða honum jafnframt til samstarfs um sýningahald n.k. haust.

Sigurður er fæddur 1975 og lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Vídeóverk hans vöktu strax athygli þegar þau komu fyrst fram á sjónarsviðið um aldamótin síðustu. Hann hefur unnið jafnt og þétt að því að víkka út sköpunarsviðið og vinnur með miðilinn – stundum einn og stundum í samstarfi við aðra – af öryggi en jafnframt leitandi dýpt.