Sóley Þráinsdóttir lauk vöruhönnun við Listaháskóla Íslands vorið 2017 og heldur nú ásamt Garðari Eyjólfssyni, fagstjóra meistaranáms í hönnun til Dubai á alþjóðlegu sýninguna  Global Grad Show. Í tilefni af þessu spennandi tækifæri tók Marteinn Sindri Jónsson, verkefnastjóri við hönnunar- og arkitektúrdeild Sóleyju og Garðar tali.
 
 
Óhreinlætið í hreinlætinu
Í lokaverkefni sínu Cleaning Strategies tókst Sóley á við þær þversagnir sem fólgnar eru í hreinlætismenningu okkar á Vesturlöndum. Sóley rannsakaði sérstaklega ákveðnar íslenskar, staðbundnar afurðir sem hægt væri að nýta til hreingerninga, bæði til að benda á þau augljósu vandamál sem við glímum við en jafnframt til þess að leggja nýjar lausnir til málanna.
 
Beðin um að skilgreina hugtakið hreinlætismenning segir Sóley „slík menning felur í sér ógrynni af kemískum hreinlætisvörum og tólum til hreinsunar og þrifa. Þar má finna margar tegundir mismunandi hreinsiefna sem hannaðar eru til þess að hreinsa tiltekna kima, bletti eða líkamshluta hratt og auðveldlega. Innihaldslýsingar slíkra hreinsiefna eru oft upptalning óþekkjanlegra efna með óljósan uppruna. Þetta kemíska „hreinlæti“ lyktar jafnan eins og sítróna eða framandi ber í bland við bakteríudrepandi efnasambönd með óljósan uppruna.“
 
Hreinlætisvörur okkar eru stútfullar af hugmyndafræði sem breiðir yfir þá staðreynd að afskaplega stór hluti afurðanna fer til spillis með tilheyrandi mengun. „Það að hreinsa með slíkum efnum,“ segir Sóley „felur oftast í sér að þeim sjálfum – ásamt óhreinindunum – er skolað niður í vötn, sjó eða jarðveg, eða þau leyst upp í andrúmsloftið eða skilin eftir sem umbúðir eða plast þegar tilgangi þeirra er lokið. Það er því tvímælalaust hægt að tala um ákveðin „óhreinindi“ í „hreinlætinu“: plast sem brotnar ekki niður í náttúrunni og hreinsiefni sem skolað eða leyst er út í umhverfið okkar eru beinar afleiðingar hreinlætissamfélagsins. Þetta eru óhreinindi sem tilheyra ekki lengur ákveðnum hugmyndum um hreinlæti og eru einmitt þess vegna búin að snúast upp í andstæðu sína: þau verða líka að úrgangi og óhreinindum.“
 
 
Furunálar og öskumassi – staðbundið hreinlæti
Sóley ákvað að takast á við þessi vandamál með því að kortleggja áhöld, efni og aðferðir til hreinlætis í sögulegu samhengi. Í kjölfarið heimsótti hún einu burstagerðina á Íslandi, Burstagerðin ehf. sem starfrækt hefur verið í rúmlega 80 ár – en burstar hafa verið notaðir við þrif í hundruðir ára. Sóley segir:
 
„Mig langaði bæði að vita hvernig sögulega gamall hlutur eins og burstar og kústar væru búnir til og einnig hvernig þróun slíks fyrirtækis hefur verið í gegnum árin. Það sem stóð í mér eftir heimsóknina var ekki einungis sú staðreynd að burstagerð væri sjaldgæf og hverfandi iðn á Íslandi vegna samkeppni við ódýra og influtta vöru (en aðeins einn burstagerðamaður er eftir í iðninni) heldur líka að nánast allur efniviður til framleiðslu, þar á meðal náttúrulegur eins og viður og hrosshár, er innfluttur – en hvorutveggja eru vannýttar afurðir á Íslandi sem er gjarnan fargað.“
 
Sóley þurfti ekki að leita langt yfir skammt því á Íslandi má finna margar auðlindir sem eru vannýttar eða fara til spillis. Dæmi um slíkar auðlindir eru viðarafurðir og dýraafurðir. Á síðustu árum hafa nemendur í vöruhönnun við LHÍ rannsakað slíkar afurðir með það markmið í huga að gefa þeim hlutverk. „Á Íslandi er til að mynda skógrækt,” bendir Sóley á „en til þess að rækta skóg þarf einnig að grisja hann: fjarlægja tré og þannig mynda betri aðstæður fyrir skóginn í heild sinni. Við grisjun verður til viður en vegna þess hve viðarmenningin á Íslandi er stutt á veg komin verður verðgildi hans mjög lítið. Furan er ein algengasta trjátegundin sem ræktuð er markvisst hér á landi, en virði hennar liggur aðallega í eldiviði eða brennslu. Sömu sögu má segja um dýraafurðir. Eitt sinn voru dýraafurðir fullnýttar á Íslandi en í dag hefur mikið breyst þar sem dýraiðnaður samtímans snýst að langmestu leyti um kjötafurðir. Miklu magni af hráefni er því ýtt til hliðar úr framleiðsluferlinu og er þetta hráefni gjarnan urðað eða brennt – enda er það flokkað sem einskisnýtt rusl eða úrgangur.“
 
Í kjölfarið bjó Sóley til kúst úr furu og hrosshárum og velti því fyrir sér hvort að þar með væri hún búin að umbreyta óhreinindum í hreinlæti. „Eftir að hafa kannað eiginleika furuafurða,“ segir Sóley, „komst ég að því að furan hefur bakteríudrepandi og sótthreinsandi eiginleika. Ég velti því fyrir mér hvort að lyktin af „íslensku“ hreinlæti gæti frekar verið af furu en sítrónu, þar sem sítrónur vaxa ekki villtar á Íslandi. Staðbundin afgangsefni og hliðarafurðir úr skógrækt og dýraiðnaði urðu að aðaláherslu í gerð búnaðar til hreingerninga: furunálar, furuviður, kjarnaviður, tjara, hrossafita og hrosshár urðu að sápum, ilmefnum, uppþvottabursta á kústi, allt í samhengi við eiginleika hvers hráefnis. Að viðbættum öskumassa sem nota má til að þrífa yfirborð málma og glers, en öskumassi virkar vel til þess að hreinsa viðkvæm yfirborð efna sem eiga á hættu að rispast. Hrosshár eru endingabetri og hitaþolnari en plast. Furuolía virkar síðan vel sem náttúrulegt sótthreinsiefni og hliðarafurð furuolíu – furuvatn – gæti hentað fullkomlega í hreinsandi andlitsvatn þar sem furuvatnið er mun mildari en furuolían. Þessar afurðir ásamt fleirum urðu uppistaðan að útskriftarverkefni mínu, Cleaning Strategies, úr vöruhönnun við Listaháskóla Íslands.“
 
 
Sterk saga
Garðar Eyjólfsson, sem fylgir Sóleyju til Dubai segir, aðspurður um gildi verkefnisins: “Auk þess að vera sterkt efnis-kortlagningarverkefni þar sem margar birtingarmyndir og umbreytingar á efnum eru lagðar fram þá finnst mér huglægar pælingar Sóleyjar varðandi hugtakið hreinsun mjög hressandi og bera kannski vott um breytingar á viðhorfi, þar sem hreinsun er ekki skilgreint sem losun á óhreinindum – að sópa skítnum undir teppið – heldur varpar Sóley fram ferli þar sem hreinsun er ekki einhliða hugtak. Þar sem hugtakið hreinsun er tekið lengra staðbundið, að sjá tengsl milli þess sem er hreinsað, afgangsafurða og þess sem er búið til í framhaldi. Rusl hverfur ekki þó því sé sópað undir teppið. Með því að skapa hreinsunarvörur úr því sem er hreinsað varpar Sóley fram sterkri sögu til samfélagsins, að sjá verðmæti í ruslinu og að það séu falin tengsl milli þess sem við skilgreinum rusl og þess sem við skilgreinum sem virði.”
 
 
Global Grad Show
Á Global Grad Show verða sýnd 200 nemendaverkefni frá 92 háskólum í 43 löndum en alls voru 470 verk send til þátttöku. Sýningarstjóri er Brendan McGetrick hönnunarblaðamaður Guardian og ritstjóri tímaritsins Icon Magazine. „Global Grad Show heldur á lofti fallegum hugmyndum,“ útskýrir McGetric á heimasíðu sýningarinnar. „Þar koma fram verkefni sem eru hönnuð með það í huga að nýtast í þágu samfélagsins og umhverfisins. Með því að sýna þverskurð frá hönnunardeildum víða um heim, reynum við að sýna fram á það hvernig skörpustu hugsuðir af yngri kynslóðum hanna framtíðina.“
 
Sýningin Global Grad Show mun standa frá 14. – 18. nóvember á meðan á Hönnunarvikunni í Dubai (Dubai Design Week) stendur. Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Global Grad Show.