Thomas Pausz, fagstjóri við meistaranám í hönnun tekur þátt í arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum og tengist framlag hans rannsóknum á votlendisplöntunni strandstjaka sem hann hefur stundað í samstarfi við Valerio Digg og Hrefnu Sigurðardóttur.
 
Thomas starfar þvert á fagsvið bæði í hönnun og kennslu. Eftir að hafa numið heimspeki í París lauk Thomas meistaraprófi úr deildinni Design Products frá Royal College of Arts og hefur síðan starfað í London, Berlín og Reykjavík. Thomas hannar framleiðslu sem möguleika (e. speculative production scenarios) og frásagnir og muni sem byggja á gagnrýnni kortlagningu núverandi kerfa. Samhliða hönnunarvinnu sinni stýrir Thomas hönnunarsýningum og skrifar um mannlega og vistkerfislega áru tækninnar.
 
picture-18902-1462288470.jpg
 
 
Nýjar tegundir rýma
Thomas sýnir í svokölluðum votlendisskála (Swamp Pavilion) þar sem listamenn og arkitektar leitast við að skapa og ímynda sér nýjar tegundir rýma sem skapað geta mótvægi við þá landamærahugsun sem einkennir rými í nútímanum. Sú landamærahugsun birtist meðal annars í getuleysi einstakra þjóðríkja til að takast á við yfirþjóðleg vandamál, svo sem loftslagsbreytingar og stríðsátök sem spilla heimkynnum fólks og hrekur það á vergang.

 

render4_1600.jpg

Paulius Vaitiekūnas, Andrius Ropolas, Jautra Bernotaitė. The Swamp Pavilion. 2018 (http://swamp.lt/)

 

Eyja framtíðarleikans
Starfsemi votlendisskálans er skipt upp í nokkur þemu með ólíkum yfirskriftum. Thomas Pausz mun taka þátt í dagskrá sem kallast Eyja framtíðarleikans (Futurity Island) sem fer fram dagana 26. til 30. júní. Þar er leitað fanga í fagurfræði kerfa (systemic aesthetics), hópgreind (collective intelligence) og fjölvistfræði (plural ecology) í tilraunakenndum hönnunarverkefnum sem beinast að tækninýjungum og efnisnýsköpun. Eyja framtíðarleikans er í raun vettvangur fyrir þátttakendur til að velta fyrir sér framtíðarhorfum í borgarskipulagi og notkun hráefna og er útgangspunktur rannsóknanna hugtakið samlífssköpun (symbio-poesis) sem vísar til samlífs ólíkra tegunda í vistkerfi og möguleikana sem felast í sameinuðum sköpunarkrafti þvert á tegundaraðgreiningu. Um er að ræða tilraun til að takast á við umhverfisvandamál samtímans með því að nota róttækar og þverfaglegar samstarfsaðferðir sem geta haft jákvæð áhrif á framtíðina.
 
downey_1.jpg

Juan Downey. Mi Casa en La Playa. Series of 4. 1975 (http://swamp.lt/).

 
Thomas Pausz er einn fjölmargra þátttakenda í verkefninu sem telur listamenn, borgarfræðinga, arkitekta, heimspekinga, líffræðinga og listfræðinga svo eitthvað sé nefnt. Forsíðumynd fréttar er fengin að láni af heimasíðu votlendisskálann, rétt eins og annað myndefni hér að ofan, http://swamp.lt/. Hér að neðan má líta nokkrar svipmyndir úr verkefni Thomasar sjálfs.