Þóra Einarsdóttir hefur hlotið framgang sem prófessor við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.

Þóra hefur um árabil verið einn af atkvæðamestu og virtustu óperusöngvurum landsins. Hún stundaði söngnám hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur við Söngskólann í Reykjavík, framhaldsnám í söng hjá Lauru Sarti við óperudeild Guildhall School of Music and Drama og lauk mastersnámi í listkennslu frá LHÍ. 

Þóra hefur komið fram í óperusýningum og á ljóðatónleikum víða um heim og sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen, Grigori Frid, Gunnar Þórðarson og Daníel Bjarnason en Þóra fór með hlutverk Önnu í Brothers eftir Daníel þegar óperan var sett upp af Íslensku óperunni á Listahátíð í júní síðastliðnum.

Á meðal hlutverka Þóru Einarsdóttur í klassískum óperum nefna Súsönnu í Brúðkaupi Figarós, Kleópötru í Júlíus Cesar, Gildu í Rigoletto, Mimi í La Bohème, Sophie í Rósariddaranum, Xenja í Boris Godunov, Woglinde og Waldvogel í Niflungahringnum, Tatjönu í Evgeny Onegin og Luciu í The Rape of Lucretia. Auk ótal tónleika á Íslandi hefur Þóra komið fram á tónleikum víða ásamt þekktum hljómsveitum, m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennedy Center í Washington og Weill Recital Hall í New York.  Í september næstkomandi mun Þóra koma fram í Eldborg ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem hún flytur Fjóra síðustu söngva Richards Strauss undir stjórn Petri Sakari. 

Þóra er fagstjóri söngbrautar tónlistardeildar LHÍ og hefur kennt við deildina frá árinu 2014. Hún hefur í starfi sínu unnið markvisst að því að þróa námsumhverfið en hennar helstu rannsóknaráherslur eru gæði í námi tónlistarflytjenda á háskólastigi, teymisvinna kennara, einkakennsla og handleiðsla.