Um leið og ég þakka Magnúsi Þór Þorbergssyni fyrir að hefja tímabæra umræðu um laun og hlutverk stundakennara í íslensku háskólakerfi í grein í Fréttablaðinu, finnst mér mikilvægt að eftirfarandi komi fram:
 
I
Á undanförnum árum hefur mikil vinna verið lögð í að jafna og bæta launakjör fastráðinna starfsmanna Listaháskóla Íslands, með það að markmið að gera þau samkeppnishæfari við það sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Innan nýs ramma um akademísk störf hefur t.a.m. í fyrsta sinn verið þróað framgangskerfi sem tryggir fastráðnum starfsmönnum framgang í samræmi við menntun þeirra og reynslu, að undangengnu hæfismati.
 
II
Stundakennarar við LHÍ eru gríðarlega margir (um 400 á ári) sumir með mjög lítið framlag aðrir meira. Kjör þeirra hafa hækkað í samræmi við önnur launakjör sem notuð eru sem viðmið við LHÍ. Að auki hafa stundakennarar við LHÍ fengið greitt verktakaálag sem nemur nú 16.85% ofan á launin.
 
Laun stundakennara við LHÍ hafa þróast með eftirfarandi hætti undanfarin ár:
 
2013 var grunnstundin 1.850 kr. + 15,35% reiknað álag ofan á það (sem verktaki)
Haustið 2013 var grunnstund hækkuð í 1.950 kr. + 15,35% álag
2014 hækkaði grunnstundin í 1.950 kr. + 15,35% álag
2016 hækkaði grunnstundin í 2.164 kr. og álag hækkaði í 16,85%
2017 hækkaði grunnstundin í 2.294 kr. + 16,85% álag 
Haustið 2018 hækkar grunnstundin í 2.397 kr. + 16,85% álag
 
Frá 2013 til 2018 hafa laun stundakennara við LHÍ því hækkað um 30%.
 
Allir stundakennarar LHÍ verða á næsta vetri með 2.801 kr. á tímann að álagi inniföldu. Það er nokkuð umfram þau viðmið sem Magnús nefnir við HÍ fyrir doktora, en þar tekur hann reyndar ekki tillit til orlofsgreiðslna sem þar bætast við en eru reyndar lægri heldur en álagið sem LHÍ greiðir.
 
Til að fyllstu sanngirni sé gætt gagnvart þeim sem ekki þekkja til hvernig laun stundakennara eru talin, er líka rétt að geta þess að enginn stundakennara LHÍ fær greitt fyrir kennslustund út frá þessari grunneiningu. Þannig fær t.d. fræðakennari á borð við Magnús Þór greitt fjórgildi fyrir hverja kennslustund, eða 10.722,-  kr. miðað við sl. vetur. Á næsta ári verður sú upphæð 11.205,- kr. miðað við þá hækkun sem fyrirhuguð er. Við fjórgildinguna er horft til þess undirbúnings sem viðkomandi innir af hendi við undirbúning kennslunnar. 
 
III
Það skal jafnframt tekið fram að það er sannarlega ekki „stefna Listaháskólans“ líkt og Magnús Þór heldur fram að „horfa ekki til menntunar“ við laun fyrir stundakennslu. Hins vegar hafa engar ábendingar borist frá stundakennurum um málið fyrr en í tilfelli Magnúsar Þórs fyrr í vor og var svar mitt þá orðrétt til hans þá eftirfarandi: „Og varðandi síðasta punktinn, um að meta menntun til launa stundakennara (það er vitaskuld gert í hæfismati gagnvart fastráðnum starfsmönnum) þá er það ekki óhugsandi en samt nokkuð snúið, því við höfum unnið samkvæmt undantekningarákvæðinu í lögum um háskóla þar sem listrænn ferill er metinn til jafns við menntun. Það væri mjög flókin framkvæmd fyrir okkur að meta hvern og einn stundakennara útfrá slíkum breytum (menntun annarsvegar og listrænum ferli hinsvegar) og mjög kostnaðarsamt að nýta hæfisnefndir til þess. Stundakennarar skipta hundruðum á hverju ári. Slíkt er þó ekki óhugsandi, svo vonandi finnum við leið sem gæti verið ásættanleg fyrir alla aðila”.
 
Samskipti okkar Magnúsar Þórs hafa sem sagt einmitt orðið til þess að við höfum sett launamál stundakennara í frekari skoðun innanhúss hjá okkur.
 
IV
Allt þetta breytir þó ekki þeirri staðreynd að umræða um laun stundakennara við íslenska háskóla er nauðsynleg - ekki síst í ljósi þess hve mjög háskólakerfið hefur þurft að reiða sig á þeirra hlutdeild í kennslu. Í umræðu um fjárframlög til háskólastigsins á Íslandi og þá fjárþröng sem íslenskir háskólar hafa þurft að búa við, hef ég sjálf ítrekað vakið athygli á því hversu framlag stundakennara er illa metið innan háskólakerfisins og hvaða vanda háskólarnir standa frammi fyrir við að leiðrétta þann halla, ekki einungis fjárhagslega heldur einnig hugmyndafræðilega svo sem við þróun og nýsköpun, enda mikil hætta á að þekking stundakennara og reynsla rati ekki inn í háskólastarfið með þeim hætti sem æskilegt er. Þessi margþætti vandi verður ekki leystur nema fjárveitingavaldið geri háskólunum það kleift.
 
V
Í síðustu ársskýrslu Listaháskólans kemur fram að launakostnaður nemur 68% af gjöldum ársins 2017 og húsnæði 21%. Það þýðir að allur annar rekstarkostnaður starfseminnar þarf að rúmast innan þeirra 10% sem eru eftir.
 
Á meðan íslenskir háskólar eru reknir fyrir upphæðir sem eru langt fyrir neðan meðalviðmið OECD landanna - hvað þá Norðurlandanna - er augljóslega ekki hægt að leysa málefni tengd stundakennurum í einu vetfangi. En orð eru til alls fyrst og sem forsvarsmaður háskólastofnunar fagna ég þessari umræðu mjög, sem og liðsinni stundakennara við að leiða fjárveitingavaldinu fyrir sjónir hversu þeir fjármunir sem háskólunum í landinu eru úthlutaðir hrökkva skammt.
 
Fríða Björk Ingvarsdóttir,
rektor Listaháskóla Íslands.