Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Opið fyrir innsendingar

  • 9.apríl 2024

Opnað hefur verið fyrir innsendingar innleggja Hugarflugs 2024, rannsóknarráðstefnu LHÍ. Opna kallið þetta árið er svo hljóðandi:

Listrannsóknir: hin skynræna þekking.

Rannsakendur beina sjónum sínum í síauknum mæli að listamönnum og hvernig þeir nálgast viðfangsefni sín. Það innsæi og sú skapandi hugsun sem listsköpun krefst hefur reynst árangursrík viðbót við staðlaðar aðferðir raunvísinda. Listamenn eru forvitnir einstaklingar sem beita gagnrýnni og þverfaglegri hugsun við lausnir á flóknum vandamálum. Oft hefur sú færni þróast frá unga aldri. Listrannsóknir hafa því gildi langt umfram hina augljósu fagurfræðilegu þætti.

Þrátt fyrir þetta virðist skorta á skilning og samtal við rannsóknarumhverfið. Tilgangurinn með Hugarflugi 2024 er að komast að því hvað liggur þar að baki. Vantar sameiginlegt tungumál? Eru rannsóknaraðferðir listamanna of frábrugðnar hinum hefðbundnu leiðum til að hægt sé að taka þær alvarlega? Mætti miðla útkomu listrannsókna á annan hátt en gert er, eða er gæðum á stundum hreinlega ábótavant?

Við opnum umræðuna með það að markmiði að svara ofangreindum spurningum. Listaháskóli Íslands kallar hér eftir tillögum af hvers kyns tagi, kynningum á rannsóknum sem eru í gangi eða hafa verið framkvæmdar af starfsfólki okkar, nemendum og/eða samstarfsaðilum. Þannig vonumst við til að framkalla “skjáskot” af rannsóknarmenningu okkar sem hægt er að ræða okkar á milli en ekki síður við fulltrúa hins breiða rannsókarumhverfis dagsins í dag. Hið glögga gests auga er enda verðmætt innlegg inn í þróun rannsókna innan Listaháskóla Íslands til framtíðar.

Opið er fyrir innsendingar til 21. maí nk. en ráðstefnan mun eiga sér stað í húsnæði LHÍ þann 13. september nk.