Kristín Dóra Ólafsdóttir
BA Myndlist 201/
kristindora.com

Síðustu ár hef ég unnið með skilaboð og texta í listsköpun minni. Orðin eru útgangspunktar og taka á sig ýmsar myndir. Í undirbúningnum fyrir lokaverkið vildi ég tvinna saman þá miðla sem hafa reynst mér best og þær setningar sem hafa fylgt mér undanfarin þrjú ár. Fánarnir eru minnisvarðar um námsferil minn í Listaháskólanum. Þeir hafa einnig almennar tengingar og gildi. Þeir eru hátíðarfánar og sýndir við hátíðlegt tilefni. Textinn á þeim fjallar um mismunandi hugarástand listamanns í sköpunarferlinu. Ég held samt að flestir geti tekið skilaboðin til sín, sköpunarferli einskorðast ekki við listamenn. Í panikástandi þarf maður að muna að anda og gleyma sér. Það er alveg bannað að tapa sér en reyndu þitt besta. Mögulega kemur eitthvað mjög flott út úr því. Hátíðarfánar eru framleiddir til að fagna sameiningu eða stórviðburðum og hafa því mikilvægi á útskriftarsýningu sem þessari. Fánar eru virðulegir og ef þeir bera texta eru þau orð staðföst og sönn. Textinn sem mínir fánar bera gefa vonandi gestum sýningarinnar innblástur til að takast á við skapandi og krefjandi verkefni. Jafnvel þó það gerist ekki þá standa þeir þarna, tilbúnir fyrir lestur. Sameiningartákn þeirra sem lesa og taka til sín en ekki annarra. Við erum vön að lesa þjóðleg og þjóðrækin skilaboð af útifánum og af innifánum lesum við skilaboð sem fagna einhverju sérstöku. Oft eru það félagasamtök, klúbbar, íþróttafélög eða fyrirtæki sem eiga slíka fána. Núna eigum við svona fána. Við sem tilheyrum engum Kiwanis-klúbbi en erum samt að reyna okkar besta. Það er mjög flott.