Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Listaháskólinn kveður Fríðu Björk rektor

  • 23.júní 2023

Starfsfólk Listaháskóla Íslands kom saman í Björtu loftum í Hörpu að lokinni velheppnaðri útskriftarathöfn föstudaginn 16. júní sl. Þar var skólavetrinum fagnað og starfsfólk sem hefur lokið störfum var kvatt. Þar á meðal var það Fríða Björk rektor skólans sem nú líkur sinni tíu ára starfsfestu við skólann. Hér má lesa ræðu sem varaformaður stjórnar LHÍ flutti að því tilefni.

Kveðjuræða

Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands
2013-2023

Ég ætla að halda tölu fyrir hönd stjórnar Listaháskólans í fjarveru formanns hans Magnúsar Ragnarssonar, en ég heiti Karen María Jónsdóttir og sit í stjórn skólans fyrir hönd Baklands Listaháskólans og er jafnframt varaformaður hennar.

Við kveðjum hér Fríðu Björk Ingvarsdóttur sem gegnt hefur starfi rektors Listaháskóla Íslands síðastliðin 10 árin. Starf rektors Listaháskóla Íslands er starf sem allir innan vettvangs skapandi greina hafa skoðun á, sem er bæði gott og þarft því við þekkjum þau miklu áhrif sem skólinn hefur og mikilvægi hans fyrir samfélagið allt.

Frá þeim tíma sem Fríða hefur setið við stjórnvölin hefur mikil vinna verið lögð í endurskipulagningu á stjórnsýslu skólans, umhverfi akademískra starfa, styrkingu rannsókna á fræðasviði lista, auk uppbyggingar nýrra námsbrauta í öllum deildum. Tvívegis hefur farið fram viðamikil stofnanaúttekt á starfsemi skólans á vegum Gæðaráðs íslenskra háskóla og hafa niðurstöður í bæði skiptin verið framúrskarandi. Nám og kennsla í Listaháskóla Íslands nýtur trausts á alþjóðavettvangi.

Á tímum uppbyggingar hefur Fríða einnig verið óstöðvandi í þeirri viðleitni sinni að tryggja akademískt frelsi skólans svo skapa mætti frjósamt  samfélag, umhverfi fyrir kennara og nemendur þar sem þeir getað leitað sannleikans, skilið veruleikann, skynjað heiminn og gefið honum form í gegnum samræður, rannsóknir og listsköpun. Því akkúrat þar líkamnast einkunarorð skólans Forvitni – Skilningur– Áræðni. 

En uppbyggingu Fríðu á innra starfi skólans þekkjum við öll, og sérstaklega þeir sem starfað hafa við skólann og unnið með henni að uppbyggingunni síðastliðinn áratuginn. Því langar mig til að beina kastljósinu að því starfi hennar sem birtist okkur í stjórninni en er mörgum öðrum hulið.

Hugtakið akademískt frelsi snertir í víðum skilningi ekki aðeins innra starf Listaháskólans heldur einnig stefnumótun og rekstur skólans, að hann hafi hverju sinni og frelsi til þróast og dafna á eigin forsendum. Listaháskólinn eins og aðrar stofnanir er leikandi í ytra umhverfinu og eins og skólinn hefur áhrif á ytra umhverfið hefur ytra umhverið áhrif á hann. Inn í þetta óræða ytra rými hefur Fríðar verið óhrædd að stíga og bjóða upp í dans.

Til að mynda í baráttunni um nýtt húsnæði fyrir Listaháskólann. Fáir gera sér ef til vill grein fyrir því að á þessum 10 árum frá því að Fríða tók við hefur hið pólitíska landslag verið á töluverðri hreyfingu. Á tímabilinu höfum við farið fjórum sinnum í gegnum Alþingiskosningar, 11 ráðherrar allir með sínar áherslur, úr 5 ólíkum stjórnmálaflokkum, hafa verið verið stjórnvölin í þeim þremur ráðuneytum sem koma að ákvörðun um nýtt húsnæð.

Sérhver stjórnarskipti, ráðherraskipti eða uppskipting ráðuneytis er ákveðin núllpunktur. Byrja þarf að vissu leiti upp á nýtt. Greina þarf stöðuna, nýjar áherslur og finna nýjan samhljóm og takt í samtalinu. Oft hefur þessi staða dregið úr þrótti stjórnar en alltaf þegar myrkrið hefur verið sem svartast þá hefur Fríða dregið okkur í átt að ljóstýrunni sem henni tekst á undraverðan hátt alltaf að finna og magna upp.

Og það sama á við um rekstur skólans sem þröngt er sniðinn stakkur.   Fríða átti frumkvæði að endurskipulagningu fjármála skólans sem fól meðal annars í sér smíði úthlutunarlíkans sem skapað hefur mikið gagnsæi í nýtingu fjármuna í skólastarfinu og þar með sanngirni í starfseminni allri. Með gögnin á borðinu hefur samtalið við hið opinbera um rekstur skólans breyst og meira traust er borið til hans en áður. Þá hefur viðsnúningur í rekstri skólans og jákvæð rekstrarniðurstaða einnig skipt sköpum í samtali okkar við stjórnvöld um nýtt húsnæði og áframhaldandi uppbyggingu og eflingu háskólanáms á fræðasviði lista.

Slíkt er ekki síst mikilvægt á tímum eins og nú þegar boðað hefur verið aðhald í ríkisrekstri og sameining stofnanna í endurskoðaðri fjármálaáætlun. Listaháskólinn hefur síðastliðin fimm árin búið við það ástand að vera samningslaus. Á hverju ári höfum við þurft að bíða eftir samþyktt fjárlaga til að staðfesta áframhaldandi rekstur og þá upphæð  sem skólinn hefur til ráðstöfunar í starfseminni hverju sinni. Hér var það aftur óbilandi trú Fríðu á hlutverk og tilgang Listaháskólans sem kom málinu endanlega í höfn en það var sannarlega gleðiefni þegar nýr stofnanasamningur til fimm ára var lagður á borðið í vikunni.

Grundvallarbreytingar hafa einnig átt sér stað í samfélaginu með byltingum eins og MeToo og umræðu um inngildingu fatlaðra og menningarnám. Við getum verið gríðarlega stolt af því hversu föstum tökum þessi umræða var tekin innan skólans, hvernig hlustað var, unnið að úrbótum og unnið verður áfram að úrbótum.  Þetta var flókið, viðkvæmt en ó svo réttmætt og tímabært. Svo ekki sé talað um heimsfaraldurinn sem lokaði samfélaginu og hafði gríðarleg áhrif á geðheilsu heillar þjóðar, en við getum staðfest að Fríða var vakin og sofin yfir velferð alls starfsfólks og nemenda skólans, allt þar til yfir lauk.

Loks er það tæknin sem gjörbreytt hefur öllum sem við þekkjum og leyst úr læðingi krafta sem við vitum ekki enn með vissu hvernig munu þróast. Þegar Listaháskólinn var stofnaður um aldamótin síðustu vorum við enn að deila um hvort internetið væri bóla. Rétt tæpum áratug síðar komu snjallsímar á íslenskan markað með tilheyrandi þróun eins og sýndarveruleika og viðbættum veruleika og í dag er í undirbúningi námsbraut í stafrænni sköpun og miðlun í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Að ekki sé talað um gervigreindina sem Listaháskóli Íslands að sjálfsögðu hefur boðið velkomna og ChatGPT sem óvænt er að kollsteypa öllu síðustu misserin en spennandi verður að sjá hvernig unnið verður úr þeirri skapandi kaos á næstunni.

Saga Fríðu í starfi rektors Listaháskóla Íslands lýsir framúrskarandi leiðtoga sem er einstaklega naskur á umhverfið og andann og vílar ekki fyrir sér að taka slaginn, jafnvel aftur og aftur. Bjartsýnin sem einkennir hana og óbilandi trú á starfsemina sem hún stýrir, fólkið og listina er einstök. Þar ræður einnig risastórt hjartað hennar för.