Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuMeistaranemar á fyrsta ári frá tónlistar- og sviðslistadeildum LHÍ vörðu einni viku á Hólum í Hjaltadal í september sl.
Þar fengu nemendur tækifæri til að upplifa náttúru, menningu og sögu þessa fornfræga staðar. Hópurinn gerði fjölbreytilegar tilraunir með þverfaglegt samstarf og lagði með því grunn að öflugum vettvangi til sameiginlegrar listsköpunar á komandi tveimur árum sem hann mun stunda nám saman. Hópurinn naut frábærs aðbúnaðar og aðstöðu í boði Háskólans á Hólum og Hóladómkirkju, en bæði dómkirkjan og miðaldabyggingin Auðunnarstofa hýstu fjölmörg tónverk, hljóðritanir, gjörninga og ýmsan annan skáldskap, en eins nýttust háskólinn og allt umhverfi staðarins sérlega vel til sameiginlegrar sköpunar og innblásturs.
Námskeiðið er mikilvægur liður í aðlögun NAIP meistaranema (New Audiences and Innovative Practice) að námi sínu, og er þetta 15. árið í röð sem slíkt námskeið er haldið í einhverri mynd. Í öll skiptin hafa nemendur úr öðrum listgreinum og/eða öðrum listaháskólum í Evrópu og víðar tekið þátt í námskeiðinu, víkkað menningarbakgrunn hópsins í heild og stuðlað að fjölbreyttu og gagnrýnu samtali.
Allt frá árinu 2021 hafa nemendur úr meistaranámi í sviðslistum tekið þátt, og hefur það borið ávöxt í formi ýmissa samstarfsverkefna þvert á deildir skólans sem sum hver hafa haldið áfram eftir útskrift viðkomandi nemenda. En formlegt samstarf þessara tveggja námsleiða hefur staðið frá 2016 m.a. gegnum evrópsku samstarfsverkefnin Beyond Arts Disciplines (BAD) og Training Artists Without Borders.