Veðrað stál, Leir. 

Þegar ég heimsótti hina gríðarstóru stálskúlptúra Richard Serra tók ég eftir því hvernig ryð hafði fallið af hliðum þeirra og sáldrast um jarðveginn í kring. Ég fylltist samstundis innblæstri. Þetta fékk mig til þess að leiða hugann að því hversu viðkvæmur sá stóriðnaðararkitektúr umhverfis okkur sem einkennir uppbyggingu nútímans getur verið og hversu sterkbyggð ásjóna og yfirborð verka módernismans geta verið varnarlaus í sinni fáguðu tilurð. 

Þrátt fyrir að máttur slíkra þungaefna sé fyrst og fremst fólginn í getu þeirra til að slíta okkur úr samhengi náttúrunnar, eru þau engu að síður fyrirbærum náttúrunnar undirorpin og hljóta að lokum að lúta í lægra haldi fyrir þeim reglum sem náttúran setur. 

Ég hef orðið fyrir ólíkri reynslu þegar ég beini sjónum mínum að muninum á iðnaðarefnum og náttúrulegum efnum í listsköpun minni, hvort sem ég fæst við þessi efni í sínu rétta umhverfi eða ekki. Þar af leiðandi hef ég reynt að afhjúpa ákveðið jafnvægi á milli efnisþátta sem eru í grundvallaratriðum ólíkir. Ég velti fyrir mér þeim eiginleikum efnanna sem kalla fram tilfinningar, auk þess skoða ég siðferðisleg álitamál þeim tengdum í rannsóknum mínum; jafnt á vinnustofu minni sem og í náttúrulegu umhverfi þeirra. 

Listsköpun er sú athöfn að draga fram (eða búa til) merkingu úr grunnefnum, túlka og gæða þau nýju sköpulagi og tilgangi, í þessu tilfelli, að túlka birtingarmyndir náttúrunnar. Hér er engan veginn um nýtt hugtak að ræða, sem kunnugt er taldi Michelangelo að í hverjum steini byggi órannsakað mögulegt listaverk. „Hver steinblokk hefur styttu að geyma og það er hlutverk myndhöggvarans að uppgötva hana“. 

Í mínum eigin listrannsóknum beiti ég fjölda ólíkra aðferða, frá því að umbreyta efnum með eldi, til þess að vekja athygli á frumformum og jafnvel að hafa uppi á nýjum aðferðum til að túlka manngerða hluti sem þegar eru til staðar í landslaginu. Sú vegferð hefur gert mér kleift að hugsa um hráefni á nýjan leik og nálgast þau með ólíkum hætti. Ég tel afar mikilvægt að huga að „endurdreifingu“ grunnþátta, fremur en eyðileggingu þeirra eða upplausn, svo verkin megi loks birtast í nýju samhengi.