Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuVið Listaháskóla Íslands takast nemendur í fatahönnun á við listrannsóknir, gagnrýna hugsun og fjölbreytta aðferðafræði fatahönnunar með skapandi lausnum. Verkefni spegla umhverfissjónarmið, tækniþekkingu og samfélagslega þróun.
Information is provided in Icelandic for study programmes that have Icelandic as the primary language of instruction.
Um námið
Áhersla er lögð á að kynna nemendur fyrir fjölbreyttum aðferðum við hönnunarferla, að efla gagnrýna skapandi hugsun, og að undirbúa nemendur til þess að takast á við áskoranir samtímans með aðferðum hönnunar.
Umhverfissjónarmið, gæði, tækni og skapandi handverk eru lykilhugtök námsins. Nemendur vinna rannsókn sem er rauði þráðurinn í gegnum hugmyndavinnu, aðferðafræði, skissuvinnu, efnaval, framkvæmd á útfærslum í efni og að lokum miðlun á niðurstöðum. Nemendur fá þjálfun í tæknilegum miðlum og forritum, sniðagerð, fatasaum, teikningu, fjölbreyttum textílaðferðum og aðferðum við miðlun verka, s.s. ljósmyndun og framsetningu.
Nemendur á öðru ári vinna í samstarfi við Rauða krossinn að verkefninu Misbrigði þar sem notaður fatnaður er endurunninn og settur í nýtt samhengi og afraksturinn sýndur á tískusýningu. Síðastliðin ár hafa nemendur unnið með Cristóbal Balenciaga safninu á Spáni að verkefni sem tekur mið af aðferðum meistarans og er jafnframt framlag til alþjóðlegrar hönnunarsamkeppni á vegum safnsins.
Náminu lýkur með rannsókn og stórri tískusýningu þar sem útskriftarnemendur sýna lokaverkefni sín til BA gráðu, eigin fatalínu sem endurspeglar sérhæfingu, áherslur og fagurfræði hvers og eins.
Uppbygging náms
Námið sem er til þriggja ára er 180 einingar og skiptist í fræði, tækni og vinnustofur. Kennsla fer fram í fyrirlestrum, á verkstæðum og á vinnusvæði nemenda þar sem hver hefur sína eigin aðstöðu. Námið er staðbundið, kennt á íslensku og er nemandinn ábyrgur fyrir eigin námsframvindu. Námið sem er nemendamiðað gefur hverjum og einum svigrúm til að nálgast verkefnin eftir eigin áhugasviði og styrkleikum en hlutverk kennarans er að leiðbeina um hönnunarferlið og verkfæri og styðja nemandann í eigin þekkingarleit. Áhersla er á samtal nemandans við kennara og samnemendur, þar sem eigin verk og annarra eru túlkuð og sett í samhengi. Námsmat er skrifleg umsögn og miðar við staðið/fallið.
Að loknu námi
Að loknu námi eiga nemendur að vera færir um að vinna á sjálfstæðan og skapandi hátt að ólíkum verkefnum á sviði fatahönnunar, hjá hönnunarfyrirtækjum eða sjálfstætt. Námið undirbýr nemendur einnig vel fyrir framhaldsnám á meistarastigi.
Hér fyrir neðan eru sérleiðbeiningar fyrir vissa þætti umsóknarinnar:
6. janúar 2025
8. apríl 2025
Maí / júní 2025
Umsækjendur gera grein fyrir ástæðu umsóknar í viðkomandi námsleið.
Miðað er við að umsækjendur hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu námi.