Skólinn fékk veglegan styrk frá Leonardo starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins á s.l. ári til þessa verkefnis eða samtals rúmlega 7 milljónir króna.  Verkefni styrkþega eru margvísleg og endurspeglar það markmið skólans sem er að styrkja nemendur af öllum fagsviðum skólans til fjölbreyttra starfa.  Hér verða taldir upp sex styrkþegar sem nýverið hlutu Leonardo starfsþjálfunarstyrk frá LHÍ.

Dóra Hrund Gísladóttir útskrifaðist með BA próf í myndlist vorið 2012. Hún hlaut styrk uppá 3358 evrur til að starfa í 12 vikur með Elínu Hansdóttur, myndlistarmanni í Berlín. Dóra Hrund starfaði á vinnustofu Elínar þar sem hún aðstoðaði listakonuna við margs konar verkefni, t.d. rannsóknarvinnu, flokkun verka, samskipti við gallerí og söfn, smíði módela og hugmyndavinnu. Á sama tíma kynntist Dóra Hrund praktískum hliðum þess að vera sjálfstætt starfandi myndlistarmaður sem fól m.a. í sér að aðstoða Elínu við leit að nýrri vinnustofu, vinnu við textasmíð fyrir styrkumsóknir og aðra starfstengda texta.

Arnar Freyr Guðmundsson útskrifaðist með BA próf í grafískri hönnun vorið 2011. Hann hlaut 3986€ í styrk til að starfa hjá Studio Laucke Siebein í Amsterdam í alls 13 vikur. Studio Laucke Siebein leggur áherslu á að byggja skapandi ýmindarstefnur, mörkun, setja bækur og vefhönnun fyrir bæði menningar og viðskipaverkefni. Eigendur stofunnar Dirk Laucke og Johanna  Siebein hafa unnið til margra verðlauna í faginu, þ.á.m. Art Directors Club Award N.Y., The European Design Award og the Dutch Corporate Identity Award. Í starfsnámi sínu vann Arnar Freyr í samstarfi við aðra hönnuði  við að hanna kynningarefni og bók fyrir sýningu húsgagnaframleiðanda, auk þess að sjá um útlitshönnun fyrir smærra fyrirtæki.

Sigríður M. Sigurjónsdóttir útskrifaðist af fatahönnunarbraut vorið 2011. Hún hlaut 3080€ í styrk til að starfa hjá Soniu Rykiel tískuhúsinu í París. Sonia Rykiel er heimsþekkt vörumerki og hefur framleitt fatnað í yfir 40 ár. Sonia Rykiel er hefur m.a. verið nefnd „drottning prjónsins“ og verið leiðandi hönnuði í heimi tískunnar s.l. áratugi. Sigríður starfaði 7 vikur hjá Soniu Rykiel í París og tókst þar á við margvísleg verkefni sem snerta m.a. meðferð efnis, þáttöku í  hugmyndavinnu, hönnun tískulínu o.m.fl.

Olga Sonja Thorarensen útskrifaðist af leikarabraut vorið 2012. Hún hlaut liðlega 5400€ í styrk til að starfa í 16 vikur með danska leikhópnum SIGNA. Signa hópurinn er þekktur fyrir framúrstefnulegar aðferðir í leikhúsi þar sem verk eru sett uppí óhefðbundnu rými og tíma.  Hér er átt við t.d. sýningu sem sett er upp í yfirgefinni byggingu og gæti allt eins staðið yfir í nokkra daga, þ.e. leikverkið sjálft.  Í undirbúningi leikverks taka leikarar virkan þátt í sköpunarferlinu og notast er við mörg listform og miðla. Leitast er við að kanna hið óþekkta bæði í listformi og efnistökum.  Verkefni Olgu Sonju snýr að því að taka þátt í sköpunarferli sem þessu og uppsetningu sýningar sem sett verður upp í Berlín á vordögum 2013.

Björn Halldór Helgason útskrifaðist með BA gráðu af tónsmíðabraut vorið 2012. Hann hlaut 3358€ í starfsnámsstyrk til að starfa með Agli Sæbjörnssyni myndlistar- og tónlistarmanni í Berlín. Starfsnámið snertir áhugasvið Björns Halldórs sem er að blanda ólíkum miðlum í listrænni sköpun.  Verkefni Björns Halldórs fela m.a. í sér aðstoð við gerð mynd- og hljóðverka, flokkun verka listamannsins, uppsetningu á sýningum og vinnu við ýmsar tæknilegar útfærslur. Vinnustofa Egils Sæbjörnssonar í Berlín er sannkallaður suðupottur en með honum þar starfar fjölbreyttur hópur listamanna af ýmsum fagsviðum, s.s. leik- og danslistar, tónlistar og arkitektúr.

Pétur Ármannsson útskrifaðist af leikarabraut vorið 2012. Pétur hlýtur 3121€ í styrk til að starfa í níu vikur hjá hinu virta leikhúsi Schaubuehne í Berlín.  Á starfsnámsstímanum aðstoðar Pétur leikstjórann Egill Heiðar Anton Pálsson við uppsetningu á verkinu Notizen aus der Küche eftir argentínska leikskáldið Rodrigo García. Starfsnámið felur í sér tækifæri til að taka þátt í samtali við listamenn með mikla reynslu sem og að framkvæma praktísk og skapandi verkefni fyrir uppsetningu á leikverki.

Við óskum styrkþegum til hamingju með styrkinn og velfarnaðar í störfum sínum. Á vefsíðu LHÍ era ð finna lista yfir Leonardo styrkþega skólans frá upphafi: