Í starfinu felst að Una fer með fagstjórn námsbrautarinnar Fræði & framkvæmd. Þrír umsækjendur voru um starfið. Þriggja manna dómnefnd skipuð af stjórn skólans mat hæfi umsækjenda til að gegna starfinu eins og það var auglýst af hendi skólans. Niðurstaða nefndarinnar var að Una var metin „vel hæf“ en hinir tveir „hæfir.“

Una Þorleifsdóttir lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1999.  Hún stundaði síðan nám í frönsku við Université de Provence í Frakklandi, en innritaðist haustið 2000 í leiklistardeild Goldsmiths College í London. Hún lauk þaðan BA-Honours gráðu í leikhúsfræðum og leiklist vorið 2003. Una hóf síðan meistaranám við leiklistar- og leiklistarfræðadeild Royal Holloway - University of London og lauk þaðan MA gráðu í leikstjórn og leikhúsfræðum 2004. Í meistararitgerð sinni Traversing the Borderlines: A discourse on the search for alternative spaces outside of representation in theatre and performance rannsakar Una samspil leiklistar við hugmyndir um sannleika og birtingarmyndir þess samspils í samtíma sviðslistum.

Frá því Una lauk námi hefur hún gegnt starfi aðjúnkts í sviðslistum við Listaháskólann og síðan haustið 2012 verið fagstjóri námbrautarinnar Fræði & framkvæmd. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra við listastofnanir og aðra háskóla í landinu, og kennt sem stundakennari við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Endurmenntunarstofnun HÍ.  Þá hefur hún jafnframt haldið fyrirlestra og kennt einstök námskeið við listaháskóla á Englandi og í Noregi.

Stærstu verkefni Unu sem leikstjóri hefur hún unnið innan Nemendaleikhúss Listaháskólans. Þar er um að ræða uppsetningar á leikverkinu Bráðum hata ég þig eftir Sigtrygg Magnason (2010) og samsköpunarverkefninu Óraland sem unnið var í samvinnu við Jón Atla Jónasson og nemendur skólans (2012).  Meðal annarra verkefna hennar á sviði leikstjórnar má nefna hópgjörninginn Laugavegurinn – gengið á vit sögunnar, sem var fluttur á Listahátíð í Reykjavík 2009. Una leikstýrir verkinu Getum við hætt að tala um Noreg eftir Mikael Torfason, sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu næsta haust, og verkinu Nú er himneska sumarið komið eftir Sigtrygg Magnason, sem frumsýnt verður 13. apríl næstkomandi  í Árbæjarsafni.

Una hefur skrifað nokkrar greinar um leiklist sem byggja á rannsóknum hennar í greininni, komið að skipulagningu ýmissa málþinga og samstarfsverkefna, og verið virk í félagsmálum. Meðal annars hefur hún setið í valnefndum Grímunnar, Keðju-verkefnisins, og Reykjavík Dansfestival. Þá hefur henni verið falin ýmis trúnaðarstörf innan Listaháskólans og m.a. setið í inntökunefndum og í kennsluskrárnefnd hans.

Una tekur við starfi lektors þann 1. apríl næstkomandi.