Hún hefur frá árinu 2006 verið sýningarstjóri og forstöðumaður CAPC samtímalistasafnsins í Bordeaux. Áður starfaði hún sem sýningarstjóri hjá samtímalistasafninu Castello di Rivoli, Museo d’Arte Contemporanea á Ítalíu (2002-2005) og hjá P.S.1. Contemporary Art Center í New York (1999-2000). Laubard hefur einnig starfað sem sjálfstæður sýningarstjóri og myndlistagagnrýnandi. Hún er m.a. einn af stofnendum sýningaverkefnisins „More Fools in Town” í Turin á Ítalíu. Greinar hafa birst eftir hana í mörgum alþjóðlegum listtímaritum á borð við Zérodeux, Beaux-Arts Magazine, Artforum, Flash Art og Rebel.

Charlotte Laubard flytur erindi í fyrirlestraseríunni Umræðuþráðum um stöðu samtímalistasafna á 21. öld fimmtudaginn 11. apríl kl. 20.00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er öllum opinn án endurgjalds. Fyrirlesturinn einnig liður í dagskrá Sequences.  

Umræðuþræðir er samstarfsverkefni Listasafns Reykjavíkur, Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar og myndlistardeildar Listaháskóla Íslands. Lagt er uppi með að skapa vettvang hérlendis fyrir alþjóðleg tengsl og umræður í fyrirlestraröð ár hvert. Þátttakendur í verkefninu eru virtir sýningarstjórar, fræði- og listamenn sem eiga merkan feril að baki á alþjóðlegum vettvangi. Charlotte Laubard kemur til Íslands í samstarfi við Franska sendiráðið á Íslandi, Alliance Française og Íslandsstofu. Bandaríska sendiráðið á Íslandi er aðalstyrktaraðili fyrirlestrarraðarinnar Umræðuþráða.