Helgina 28. og 29. október s.l. fór fram hin árvissa samkeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um að fá að koma fram með hljómsveitinni. Aldrei fyrr hafa keppendur verið jafn margir, en 23 hljóðfæraleikarar og söngvarar skráðu sig til keppninnar .
 
Dómnefnd var skipuð þeim Sigrúnu Eðvaldsdóttur, 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem var formaður nefndarinnar; Árna Heimi Ingólfssyni, píanóleikara og tónlistarfræðingi,  Sigríði Ellu Magnúsdóttur, söngkonu, Matthíasi Nardeau, óbóleikara og Magnúsi Ragnarssyni kór- og hljómsveitarstjóra. 
 
Dómnefnd valdi fjóra sigurvegara að þessu sinni og munu þau koma fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborgarsal Hörpu þann 11. janúar á næsta ári.
 
Þetta eru þau:
Ásta Kristín Pjetursdóttir, víóluleikari
Bryndís Guðjónsdóttir, sópran
Guðmundur Andri Ólafsson, hornleikari og
Romain Þór Denuit, píanóleikari
 
Listaháskóli Íslands óskar sigurvegurunum hjartanlega til hamingju og þakkar jafnframt öllum þeim hæfileikaríku söngvurum og hljóðfæraleikurum sem tóku þátt í þessari erfiðu keppni.
 
Tónleikarnir verða fimmtudaginn 11. janúar í Eldborgarsal Hörpu og hefjast kl. 19:30.  Stjórnandi verður Daniel Raiskin
 
Miðasala er hafin á harpa.is og á sinfonia.is