Fornafn: 
Sigurður Guðjónsson

 

Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur í Berlín, New York, Lundúnum, Beijing, Seoul og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti fullt eins skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verk sem fanga áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir. Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning, þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við þau og fer að skynja fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í samstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin.

www.sigurdurgudjonsson.net
www.bergcontemporary.is/artists/sigurdur-gudjonsson

Deild á starfsmannasíðu: