Fornafn: 
Þóra Einarsdóttir

 

Þóra Einarsdóttir stundaði söngnám hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur við Söngskólann í Reykjavík og framhaldsnám í söng hjá Lauru Sarti við óperudeild Guildhall School of Music and Drama. Hún hefur einnig lokið mastersnámi í listkennslu frá LHÍ. Þóra hefur leitt söngnámið við Listaháskóla Íslands frá árinu 2014 og hefur í starfi sínu unnið markvisst að því að þróa námsumhverfið. Hennar helstu rannsóknaráherslur eru gæði í námi tónlistarflytjenda á háskólastigi, teymisvinna kennara, einkakennsla og handleiðsla. 
Þóra hefur komið fram í óperusýningum um allan heim og sungið hlutverk í nýjum óperum eftir Harrison Birtwistle, Simon Holt, Sunleif Rasmussen, Gregory Frid, Gunnar Þórðarson og Daníel Bjarnason. Á meðal hlutverka í klassískum óperum má nefna Súsönnu í Brúðkaupi Figarós, Kleópötru í Júlíus Cesar, Gildu í Rigoletto, Mimi í La Bohème, Sophie í Rósariddaranum, Xenja í Boris Godunov, Woglinde og Waldvogel í Niflungahringnum, Tatjönu í Evgeny Onegin og Luciu í The Rape of Lucretia.
Þóra hefur lagt áherslu á ljóðasöng og tekið þátt í flutningi fjölda kirkjulegra verka. Auk ótal tónleika á Íslandi hefur hún komið fram á tónleikum víða ásamt þekktum hljómsveitum, m.a í Barbican Hall, Royal Albert Hall og Royal Festival Hall í London, Konzerthaus Berlin, Berliner Dome, Philharmonie am Gasteig, Kennedy Center í Washington og Weill Recital Hall í New York.  
Þóra hefur sungið inn á fjölda hljóðritana bæði hér heima og erlendis. Hún söng hlutverk Mimi í fyrstu heildarútgáfu á óperunni Vert-Vert eftir Offenbach sem kom út hjá Opera Rara í London. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verið sæmd Hinni íslensku fálkaorðu og Dannebrog-orðunni. Hún var valin söngkona ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2016 fyrir túlkun sína á tónaljóði Sibeliusar, Luonnotar, ásamt Sinfónóíuhljómsveit Íslands undir stjórn Vladimir Ashkenazy og einnig 2017 fyrir frammistöðu sína sem Tatiana í Evgení Ónegin hjá Íslensku óperunni.  
 
Þóra er sviðsforseti kvikmyndalista, tónlistar og sviðslista. 

 

 

 

 

Deild á starfsmannasíðu: