Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuRannsóknarleyfum fyrir skólaárið 2025–2026 hefur verið úthlutað til akademískra starfsmanna Listaháskólans.
Anna Dröfn Ágústsdóttir, lektor við hönnunardeild, hlaut rannsóknarleyfi á haustönn 2025 til að vinna að nýju rannsóknarverkefni, Hönnun, kvennaheimili og kvenfrelsi í Reykjavík í byrjun 20. aldar. Verkefnið er mikilvægt framlag til íslenskrar hönnunarsögu og fjallar um hvernig hópur kvenna á þessum tíma nýtti hönnun til að skapa sér samfélagslegt rými, efla umræðu um listir og iðnað, og leggja grunn að hönnunarmenntun á Íslandi. Um verkefnið segir Anna Dröfn:
„Í rannsókninni er áhersla á hóp kvenna sem hönnuðu sér leið út af heimilum og sköpuðu sér pláss í opinberri umræðu í byrjun 20. aldar með það að markmiði að efla meðal annars umræðu um listir og iðnað eða, í mörgum tilfellum, það sem við myndum kalla hönnun í dag. Reynt er að færa rök fyrir því að í gegnum hönnun hafi hópi kvenna annars vegar tekist að endurskilgreina stöðu sína í samfélaginu og hins vegar náð að leggja grunn að uppbyggingu innviða sem síðar urðu grunnur að lista- og hönnunarnámi á Íslandi. Þetta er framlag til íslenskrar hönnunarsögu sem lítið hefur verið skrifað um á fræðilegum nótum. Birt verður grein í Sögu. Tímariti Sögufélags en það er ritrýnt fræðirit og flutt erindi á bæði Hugarflugi og Hugvísindaþingi.“
Anna María Bogadóttir, dósent við arkitektúrdeild, hlaut rannsóknarleyfi til að vinna að listrannsókn sem ber heitið, Pissað í gullkamar. Í rannsókninni skoðar hún samband vatns og manngerðs umhverfis með áherslu á skapandi nálgun á samtímaarkitektúr og menningarlegt samhengi. Um verkefnið segir Anna María:
„Markmið listrannsóknarinnar er að virkja fyrirliggjandi vinnu mína við kennslu og rannsóknir sem hverfast um vatn í arkitektúr og skipulagi í samtímanum. Samfara er markmiðið að skapa listræna heild úr þessum vota og safaríka efnivið, í verki sem verður til á mærum arkitektúrs og bókmennta. Í nútímaarkitektúr og skipulagi birtist vatn iðulega sem fyrirbæri er lýtur stjórn manneskjunnar. Það er leitt áfram í þar til gerðum lögnum undir yfirborðinu, inni í og meðfram veggjum og gólfplötum. Getur arkitektúr haft áhrif á sjónarhorn samfélagsins á vatn? Virkjað annað sjónarhorn en það sem er nú ráðandi? Í listrannsókninni beiti ég fyrir mig frásagnarformi sem tengir saman ólíka þræði í texta, ljósmyndum og teikningum. Þannig feta ég mig eftir snertifleti arkitektúrs og bókmennta þar sem ég hef leitast við að þróa aðferð til að skrifa arkitektúr, að yfirfæra eigin rannsóknir á arkitektúr yfir í bókmenntalegt samhengi með því að tengja saman hið almenna og hið einstaka; manngert umhverfi og það að lifa og hrærast í umhverfinu, sem við mótum og mótumst af. Afrakstur listrannsóknarinnar verður á formi bókar þar sem teikningar, ljósmyndir og texti spila saman. Einnig er fyrirhuguð sýning í tengslum við útgáfuna.“
Carl Boutard, dósent og fagstjóri í myndlistardeild, hlaut rannsóknarleyfi á vorönn 2026 til að vinna að þróun nýrrar aðferðar í höggmyndalist, þar sem handverk og stafrænar aðferðir mætast. Um verkefnið segir Carl:
„ Combining analog and digital techniques in the shaping and production of sculpture. In a world where demands for shorter production time, faster production techniques and remote control are ever increasing this research project proposes a method where the presence and slowness of the hand can be combined and assisted by digitization of the objects. Through the use of digital scanning techniques, the applicant will expand and gain knowledge of how to develop an alphabet of objects/ forms/ shapes that can be utilized separately or combined, in different scales, contexts and materials. “
Snæbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor við sviðslistadeild, hlaut rannsóknarleyfi á vorönn 2026 til að rannsaka raddvinnu leikara. Verkefnið sameinar fræðilega greiningu á röddinni sem grunnstoð í leiklist og mannlegu eðli við þróun hagnýtra æfinga fyrir leiklistarnema. Markmið rannsóknarinnar er að gefa út kennslubók um efnið árið 2026. Um verkefnið segir Snæbjörg:
„Rannsóknin dregur m.a. fram þrjú sjónarhorn á rödd og raddvinnu; hið líkamlega, hið hugmyndalega og hið djúpstæða. Líkamlega sjónarhornið beinist að tæknilegum þáttum raddbeitingar, hið hugmyndalega að óáþreifanlegri hugtökum svo sem jarðsambandi, rými og fókus. Hið djúpstæða sjónarhorn horfir svo á manneskjuna í öllum sínum margbreytileika; kenndir hennar og tilfinningar. Í raddnámi er hagnýtt að vinna með eitt sjónarhorn í einu, ekki síst á fyrstu stigum náms, en í raun innibera þau hvert annað. Rannsóknin beinist m.a. að því hvernig þessi ólíku sjónarhorn styrkja hvert annað. Æfingasafnið er afrakstur áratugalangar kennslu við sviðslistadeild. Það kvíslast í tvo flokka; raddtækniæfingar þar sem unnið er með alla grunnþætti raddbeitingar – öndun, slökun, nátturulegan stuðning, hljóm, raddmyndun, hljóðmótun – og svo textaæfingar; að kynnast texta, að greina texta með líkama og rödd, eigna sér texta, líkamna texta, karakter og texti, texti í samspili við mótleikara, að halda texta lifandi.“
Rannsóknarleyfi eru 85 virkir dagar eða um 17 vikur. Samkvæmt reglum skólans eru formleg skilyrði fyrir veitingu rannsóknaleyfis þau að starfsmaður hafi skilgreint rannsóknarhlutfall innan ráðningasamnings, hafi uppfyllt starfsskyldur sínar samkvæmt þeim samningi og geti sýnt fram á virkni í rannsóknu við upphaf rannsóknarleyfis. Verkefnin sem unnin eru skulu vera á því sérsviði sem starfsmaður er ráðinn til við skólann og leiða til miðlunar á opinberum vettvangi.
Rannsóknarnefnd fagráðs leggur mat á umsóknir og gerir tillögu að forgangsröðun þeirra út frá faglegum viðmiðum um gildi verkefnis fyrir fræðasvið lista, skýrleika rannsóknaráætlunar, raunhæfi verk- og tímaáætlunar og áætlunar um miðlun, sem og með tilliti til formlegra skilyrða. Rektor veitir rannsóknarleyfi í kjölfarið.
Við óskum Önnu Dröfn, Önnu Maríu, Carl og Snæbjörgu til hamingju með úthlutunina og hlökkum til að fylgjast með afrakstri rannsóknanna í framtíðinni.