Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Rannsóknir efldar á sviði skapandi greina

  • 26.apríl 2024

Tveir meistaranemar hlutu nýverið styrk frá Rannsóknasetri skapandi greina (RSG) til að vinna meistaraverkefni á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina. Eitt af markmiðum nýs seturs er að efla og auka rannsóknir í þessum efnum á Íslandi. Anna Hildur Hildibrandsdóttir, formaður stjórnar RSG, afhenti styrkina formlega í Bíó Paradís í vikunni en verkefnin hafa bæði skýra tengingu við rannsóknastefnu RSG. Áætlað er að báðum verkefnum verði lokið í byrjun júní og verða niðurstöður þeirra kynntar á næsta málþingi RSG, þann 18. júní næstkomandi sem fram fer í húsakynnum nýrrar Tónlistarmiðstöðvar í Austurstræti 5.

„Það er spennandi að sjá þessar tvær góðu rannsóknir verða til og við hjá RSG vonumst til að stuðningurinn sem Lilja og Júlíus fá, gefi þeim byr í seglin að bæði ljúka verkefnum sínum farsællega og ekki síður að koma niðurstöðunum á framfæri og efla þannig þekkingaruppbyggingu í geiranum. Við hlökkum því mikið til að hitta þau aftur á einu af okkar reglulegu málþingum sem er einmitt gert til að efla samtal lærðra og leikinna um þekkingaruppbyggingu á sviði atvinnulífs menningar og skapandi greina. Það samræmist stefnu okkar að stuðla að auknum rannsóknum á þessu sviði og við vonumst til að styrkurinn verði ykkur hvatning til að halda áfram á þeirri braut sem þið eruð byrjuð að feta í rannsóknum,” sagði Anna Hildur í tilefni af úthlutuninni.

Fyrsta úthlutunin

Meistaranemarnir sem hlutu styrk í þessari fyrstu úthlutun eru:

Lilja Björk Haraldsdóttir, meistaranemi í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst

Sjónum er beint að áhorfendaþróun (e. audience development) innan sviðslistastofnana á Íslandi, með sérstaka áherslu á samsetningu áhorfenda og leiðir til frekari þróunar. Markmið rannsóknarinnar er að öðlast skilning á menningarlegum fjölbreytileika áhorfenda og könnun á þeim hópum sem stofnanir ná ekki til. Rannsóknarspurningar miða að því að greina hvort sviðslistastofnanir endurspegli menningarlegan fjölbreytileika samfélagsins og hvernig má þróa aðferðir innan áhorfendaþróunar til að ná til breiðari hóps. Rannsóknin er unnin út frá tölfræðilegum gögnum frá Hagstofu Íslands og eigindlegum viðtölum við fulltrúa frá kjarnastofnunum.

Júlíus Jóhannesson, meistaranemi í fjölmiðla- og boðskiptafræði við Háskóla Íslands.

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða þau tækifæri sem íslenskum kvikmynda-framleiðendum bjóðast til dreifingar á myndum sínum á erlendum mörkuðum. Horft er til kenninga úr fjölmiðla- og boðskiptafræði og árangur er mældur með tilliti til aðsóknar í kvikmyndahús, dreifingar kvikmynda og aðgengi þeirra að streymisveitum. Verkefnið gengur út á að mæla líkur á árangri íslenskra kvikmynda erlendis og er þetta í fyrsta skipti sem markaður íslenskra kvikmynda er rannsakaður með þessum hætti. Megindlegum gögnum var safnað handvirkt frá nokkrum vefsíðum og gagnagrunnum og ná þau til áranna 2009-2019. Auk þeirra voru unnin eigindleg djúpviðtöl til að fá innsýn um íslenskan kvikmyndamarkað.

Um Rannsóknasetur skapandi greina og meistaranemasjóðinn

Rannsóknasetur skapandi greina var stofnað sumarið 2023 og er í eigu Háskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Erla Rún Guðmundsdóttir var ráðinn verkefnastjóri setursins 1. október sl. og hefur nú tekið við stöðu forstöðumanns þess frá 1. apríl sl.

Stjórn RSG ákvað á fundi sínum í ársbyrjun 2024 að verja 2 m.kr. í rannsóknasjóð fyrir meistaranema sem vinna rannsóknaverkefni á sviði setursins. Auglýsing um styrkina var birt stuttu síðar og rann umsóknarfrestur út 22. mars. Allt bárust sex umsóknir. Þremur umsækjendum var boðið í viðtal og stjórn RSG tók svo ákvörðun um að veita tveimur verkefnum styrk.
Næsti umsóknafrestur í meistaranemasjóðinn er föstudagurinn 22. ágúst. Sjá nánar hér.

Meginmarkmið Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina, með hliðsjón af fjölþættum áhrifum listsköpunar og menningarframleiðslu á samfélagið. RSG er óháður rannsóknaraðili og leggur áherslu á akademískt sjálfstæði í allri starfsemi. Rannsóknasetrið sinnir fjölbreyttum rannsóknum og greiningum á atvinnulífi menningar og skapandi greina og vinnur að því að styrkja rannsóknamenningu og -innviði á þessu sviði.

Frekari upplýsingar um Rannsóknasetur skapandi greina er að finna á heimasíðu setursins.