Rannsóknarstefna tónlistardeildar

Tónlistardeild LHÍ ber ábyrgð á þróun rannsókna á sviði tónlistar innan íslensks háskólasamfélags og hefur þá trú að allt starf deildarinnar muni styrkjast með öflugri rannsóknarmenningu. Þess vegna vill tónlistardeild efla rannsóknir, auka sýnileika þeirra og stuðla að gæðum og gildi rannsóknanna.  

Í því skyni mun deildin skapa nauðsynlega umgjörð þar sem hin fjölbreytta starfsemi deildarinnar fær að blómstra í samtali við ytra umhverfi. Þess vegna verður lögð áhersla á samstarf við margvíslegar stofnanir, hópa og einstaklinga innanlands.  

Mikilvægt er að útvíkka hið hefðbundna miðlunarform rannsókna þegar kemur að tónlist svo að sem flestir starfsmenn deildarinnar hafi tækifæri og farveg til að miðla nýsköpun sinni og rannsóknum.

 

Rannsóknarmenning:

Í tónlistardeild eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir sem er miðlað á margvíslegan hátt. Kennarar deildarinnar taka þátt í margvíslegum rannsóknarviðburðum, bæði á vegum deildarinnar (hádegisfyrirlestraröð og RíT) og skólans (Hugarflug). Vefrit deildarinnar, Þræðir, hefur fest sig í sessi sem eina tónlistarrit á Íslandi og kemur út árlega. Rannsóknarstofa í tónlist (RíT) hefur haldið tvo til þrjá viðburði á önn í samstarfi við einstaklinga og stofnanir utan skólans.  

 

Markmið: 

  • Rannsóknarverkefni verði þróuð innan deildarinnar með tengsl rannsókna og kennslu í huga útfrá sérsviði akademískra starfsmanna.
    • Verkefni verði þróuð til umsóknar í samkeppnissjóði (Rannsóknarsjóð Rannís/Nýsköpunarsjóð námmanna) árlega.
  • Hafa aðstöðu til þess að hýsa verkefni nýdoktora svo sú þekking geti flætt inn í kennslu og samfélag deildarinnar.   
    • Aðgangur að hefðbundinni og sérhæfðri vinnuaðstöðu.
    • Kennsla og þátttaka í starfi deildarinnar.
  • Tengjast alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi.  
    • Með því að auka sýnileika rannsókna á alþjóðlegum vettvangi með þátttöku í alþjóðlegum rannsóknagagnagrunnum og alþjóðlegum ráðstefnum.
    • Með því að skipuleggja alþjóðlega ráðstefnu sem tengist starfi deildarinnar.
  • Stuðla enn frekar að fjölbreytileika í miðlun rannsókna akademískra starfsmanna.
    • Með því að hvetja til sjálfstæði í miðlun rannsókna á víðtækum vettvangi.
    • Virkja akademíska starfsmenn í að miðla ólíkri gerð þekkingar.

 

Rannsóknastofa í tónlist (RíT)  - Centre for Research in Music (CRiM) 

Rannsóknarstofa í tónlist (RíT) framfylgir rannsóknarstefnu tónlistardeildar. RíT styður við rannsóknarverkefni deildarinnar og skapar vettvang til miðlunar. Stofan leggur áherslu á fjölbreyttar aðferðir og nálganir á rannsóknum og skipuleggur ráðstefnur, málþing, málstofur og vinnusmiðjur í samstarfi við margvíslegar stofnanir, hópa og einstaklinga innanlands og utan.  

 

Þræðir 

Vefritið Þræðir er gefið út af tónlistardeild Listaháskóla Íslands og hefur það hlutverk að skapa vettvang og hvata fyrir hvers konar rannsóknarvinnu tengda tónlist innan sem utan skólans. Lögð er áhersla á opinn vettvang, þ.e.a.s. mikill sveigjanleiki er til staðar varðandi tegundir texta sem tímaritið inniheldur. Tekið er á móti stuttum sem löngum greinum/textum út frá ýmsum sjónarhornum (fræðilegum, fagurfræðilegum, pælingar, yfirlýsingar (manifesto), listrænar nálganir/aðferðir, umfjallanir, úttektir, o.fl.). Einnig má koma með uppástungur varðandi tegundir af textum. Kallað verður eftir textum, ekki greinum til að leggja áherslu á fjölbreytileika tímaritsins. 

Vefritið beitir sér fyrir því að vera vettvangur fyrir: 

  • Orðræðu um tónlist á íslensku máli 

  • Miðlun þekkingar 

  • Varðveislu rannsókna 

Með vefritinu viljum við auka umsvif rannsókna á sviði tónlistar, skapa ný tækifæri og hvata, og vera miðstöð sjónarhorna innan tónlistar. 

Ritið má finna hér: lhi.is/thraedir

Ritnefnd: 
Berglind María Tómasdóttir 
Einar Torfi Einarsson 
Þorbjörg Daphne Hall 

 

Föstudagsfyrirlestrar 

Í fyrirlestraröð deilarinnar kynna kennarar tónlistardeildar og gestir eigin verkefni, rannsóknir og/eða listsköpun og ræða um tengsl þeirra við kennslu, listir eða samfélagið almennt. Fyrirlestraröðin er sett saman með nemendur deildarinnar í huga og er hún liður í því að rækta gagnrýna hugsun og umræðu auk þess að kynna fjölbreyttan starfsvettvang tónlistar. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er bæði fagfólk, nemendur og áhugafólk um tónlist hvatt til þess að mæta.