Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Rannsóknarstefna

Decor overlay

Í Listaháskólanum eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir þar sem unnið er með margvísleg efni, form og miðla. Fyrir tilstilli listsköpunar eru þróaðar nýjar rannsóknaraðferðir. Frelsi og svigrúm er til rannsókna í umhverfi þar sem borin er virðing fyrir ólíkum nálgunum, viðfangsefnum og framsetningum.

Rannsóknarstefna LHÍ

Í Listaháskólanum eru stundaðar fjölbreyttar rannsóknir þar sem unnið er með margvísleg efni, form og miðla. Fyrir tilstilli listsköpunar eru þróaðar nýjar rannsóknaraðferðir. Frelsi og svigrúm er til rannsókna í umhverfi þar sem borin er virðing fyrir ólíkum nálgunum, viðfangsefnum og framsetningum.

Áhersluatriði

  • Styrkja rannsóknarmenningu á fræðasviði lista.
  • Efla tengsl kennslu og rannsókna við háskólann.
  • Styrkja rannsóknarinnviði og auka sýnileika þekkingarsköpunar á fræðasviði lista.
  • Efla þverfagleg tengsl og rannsóknir innan meistaranáms.
  • Hefja doktorsnám í listum.

Markmið Listaháskólans er að styrkja rannsóknarmenningu á fræðasviði lista og eignast ríkari hlutdeild í rannsóknarsamfélaginu á Íslandi. Áhersla er lögð á að tryggja fjármögnun til rannsóknarstarfsemi háskólans, styrkja rannsóknarinnviði og skapa umgjörð þar sem fjölbreyttar nálganir og aðferðir eru þróaðar út frá forsendum listanna. Þannig muni tengsl rannsókna, náms og kennslu eflast enn frekar. Markvisst er unnið að því að fjölga snertiflötum við samfélagið og styrkja tengsl staðbundins samhengis og alþjóðlegs umhverfis.

Útfærsla áhersluatriðanna byggir á eftirfarandi leiðarljósum:

  1. Styrking innviða og rannsóknarmenningar
  2. Samþætting rannsókna og kennslu
  3. Efling meistaranáms og innleiðing doktorsnáms í listum

Hér að neðan er fjallað nánar um hvert þeirra áhersluatriða sem höfð eru að leiðarljósi í rannsóknarstefnu LHÍ og forgangsverkefni tilgreind.

1. Styrking rannsóknarmenningar og innviða rannsókna

Megináhersla rannsóknarstefnu Listaháskólans er að tryggja áframhaldandi uppbyggingu rannsóknarstarfs á fræðasviði lista. Hefur háskólinn lagt aukna áherslu á sókn í ytri styrktarsjóði á síðustu árum samhliða eflingu rannsóknarinnviða og stofnun sviðs akademískrar þróunar.

Leiðir sem styðja við þróun innviða og rannsóknarmenningar:

  • Innra skipulag og umgjörð rannsóknarstarfs styrkt með tilliti til hugmyndafræðilegrar samlegðar þvert á greinar, s.s. með stofnun þematengdra rannsóknaklasa.
  • Innleiðing formlegs matskerfis rannsóknarafraksturs sem tryggi faglegt jafningjamat og styðjandi endurgjöf.
  • Aukinn stuðningur við gerð umsókna í opinbera samkeppnissjóði.
  • Innri samkeppnissjóðir Listaháskólans verða styrktir.
  • Hvetja til miðlunar rannsókna með fjölbreyttum hætti og á ólíkum vettvangi.
  • Varðveisla rannsóknarverkefna tryggð auk þess sem mótuð verði stefna um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum.
  • Aðgengi að rafrænum gagnasöfnum og heimildum aukin.
  • Lögð verður aukin áhersla á þátttöku í alþjóðlegum og innlendum samstarfsverkefnum við háskóla, menningarstofnanir og fyrirtæki á fagvettvangi.
  • Hýsing nýdoktorsverkefna og rannsóknarverkefna sem styrkt eru af ytri sjóðum.
  • Rannsóknarleyfum verði fjölgað.
  • Aukið fjármagn til rannsókna verði tryggt.

2. Samþætting rannsókna og kennslu

Áhersla er lögð á að kennsla og námssamfélag háskólans mótist í auknu mæli af rannsóknum og sérþekkingu akademískra starfsmanna. Með því að efla rannsóknarmenningu innan háskólans og opinn vettvang samtals um rannsóknir þvert á deildir og fagsvið öðlast nemendur betri innsýn í áherslur og þróun í rannsóknum á fræðasviði lista. Sömuleiðis er mikilvægt að tryggja akademískum starfsmönnum svigrúm til að stunda rannsóknir á breiðum grundvelli, hvort sem um er að ræða listrannsóknir, fræðarannsóknir eða starfstengdar rannsóknir, sem eru til þess fallnar að styrkja háskólakennara í starfi.

Leiðir sem stuðla að samþættingu rannsókna og kennslu:

  • Verkstæði, tækniver og vinnustofur verða efldar sem vettvangur rannsókna.
  • Nemendur fái aukna rannsóknarþjálfun og aukin áhersla verði lögð á sjálfstæð rannsóknarverkefni þeirra.
  • Nemendur fái tækifæri til þess að taka þátt í og öðlast innsýn í rannsóknarstarf akademískra starfsmanna.
  • Akademískir starfsmenn fái aukinn stuðning, hvatningu og svigrúm til þess að stunda

3.Efling meistaranáms og innleiðing doktorsnáms í listum

Stefnumiðað samstarf við erlenda og innlenda háskóla stuðlar að víðara samtali og viðmiðum um uppbyggingu rannsókna á fræðasviði lista hér á landi. Áhersla er lögð á að byggja upp formlegt rannsóknarsamstarf við erlenda samstarfsháskóla og aðra háskóla, menningarstofnanir og fyrirtæki hér á landi. Stefnt er að því að hægt verði að bjóða upp á doktorsnám í listum innan fárra ára.

  • Rannsóknartengt meistaranám verði styrkt og samlegð þvert á greinar aukin.
  • Samstarf um valnámskeið á meistarastigi við aðra innlenda háskóla.
  • Fjölgun tækifæra til styttri námsdvala og sameiginlegra námskeiða og rannsóknarvinnustofa með erlendum háskólum.
  • Hafið verður doktorsnám í listum.

Rannsóknarstefna Listaháskólans er sá rammi sem aðgerðaráætlanir deilda eru unnar eftir. Í deildunum er verkefnum síðan forgangsraðað í þágu þarfa og hagsmuna þeirra og faggreinanna hverju sinni.