Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

RIFF: Nemendur og starfsfólk kvikmyndalistadeildar meðal þátttakenda

  • 3.september 2024

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin RIFF hefst þann 26. september en hátíðin skipar fastan sess í íslensku menningarlífi og er ein af birtingamyndum þess mikla krafts sem býr í kvikmyndamenningu á Íslandi. Dagskráin setur unga kvikmyndagerðarmenn og framsækna kvikmyndagerð á oddinn og í ár mun stór hópur nemenda frá kvikmyndalistadeild LHÍ taka þátt í hátíðinni. Þá er Erlendur Sveinsson leikstjóri og handritshöfundur opnunarmyndar hátíðarinnar 1000 orð en Erlendur er fagstjóri og aðjúnkt við kvikmyndalistadeild.

1000 orð

Tónlistarfólkið Bríet og Birnir eru flestum kunnug en þau leiddu saman hesta sína með útgáfu nýrrar plötu í byrjun sumars sem ber titilinn 1000 orð. Samnefnd stuttmynd er sprottin út frá plötunni og var unnin í samstarfi við Icelandair og framleiðslufyrirtækið Sensor. Líkt og fram hefur komið sá Erlendur Sveinsson um leiksjórn og handrit myndarinnar sem hefur verið valin önnur af tveimur opnunarmyndum RIFF hátíðarinnar í ár.

Ég nýt þess mikið að vinna með tónlistarfólki við að skapa myndheim í kringum tónlistina þeirra. Tónlistin stækkar alltaf þegar þú hefur sterkan myndheim tengdan henni og þetta form er svo ótrúlega frjálst“ segir Erlendur í umfjöllun vegna útgáfu myndarinnar í sumar.

Erlendur á fjölbreyttan feril að baki í kvikmyndagerð. Hann hefur leikstýrt tugum tónlistarmyndbanda fyrir fjöldann allan af  tónlistarfólki hérlendis en tónlistarmyndband hans við lag Ásgeirs Trausta var tilnefnt til verðlauna á Camera Image hátíðina í Póllandi. Það er ýmislegt framundan hjá Erlendi en á stuttmynd hans Moon Pie Vanilla var sýnd á Nordisk Panorama kvikmyndahátíðinni á dögunum.

RIFF – nemastuttmyndir

Fjórar stuttmyndir nemenda kvikmyndalistadeildar verða sýndar í flokknum nemastuttmyndir en veitt eru verðlaun fyrir bestu myndina í þeim flokki.

Alvöru gaur
Salvör Bergmann, leikstjórn
Vigdís Ósk Howser Harðardóttir, handrit

Í blóma lífsins
Vigdís Ósk Howser Harðardóttir, leikstjórn
Signý Rós Ólafsdóttir, handrit

Leik lokið
Salvör Bergmann, leikstjórn og handrit

Svefngengill
Alfreð Hrafn Magnússon, leikstjórn og handrit 

Allar fjórar myndirnar eru afrakstur nemenda í námi þeirra við LHÍ en fleiri nemendur deilarinnar komu að gerð myndanna.

RIFF – íslenskar stuttmyndir

Fimm nemendur og einn starfsmaður kvikmyndalistadeildar komu að gerð kvikmynda í flokki íslenskra stuttmynda.

Hús til sölu
Konráð Kárason Þormar, stjórn kvikmyndatöku
Salvör Bergmann, klipping

Menning og listir
Vigdís Ósk Howser Harðardóttir, aðstoðarleikstjórn 
Elizabeth Karen Guarino, aðstoðarleikstjórn
Brynjar Leó Hreiðarsson, aðstoð við framleiðslu 

Duld
Brúsi Ólason, klipping
Úlfur E. Arnalds, lýsing


Vigdís, Konráð og Salvör stunda nám á þriðja ári við kvikmyndalistadeild LHÍ en Elizabeth, Úlfur og Brynjar eru nemendur á öðru ári. Brúsi Ólason er lektor við deildina.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir fulltrúi í dagskrárráði unga fólksins á RIFF

Dagskrárráð unga fólksins saman stendur af þrettán ungmennum sem í aðdraganda hátíðarinnar velja nokkrar kvikmyndir  sem prýða munu dagskrá hátíðarinnar í ár. Jóna Gréta er á þriðja ári í bakkalárnámi við kvikmyndalistadeild LHÍ en hún hefur einnig setið í nemendaráði deildarinnar.