Tónlist fyrir alla: Útskriftartónleikar Silju verða 4.maí klukkan 20:00 í Sölvhóli, Sölvhólsgötu 13. Tónleikarnir eru hluti af Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands 2017. 

Silja Garðarsdóttir byrjaði ung í tónlistarnámi við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Þar lærði hún klassískan söng hjá Þuríði Baldursdóttur og á píanó hjá Elínu Jakobsdóttur. 
Hún kláraði miðpróf í söng frá Tónlistarskóla Eyjafjarðar en þegar leiðin lá í Menntaskólann á Akureyri fór hún í áframhaldandi söngnám hjá Michael Jón Clarke við Tónlistarskólann á Akureyri. 

Þaðan lauk hún framhaldsprófi í söng þegar hún var tvítug. Silja fór strax eftir framhaldsprófið í Tónlistarskólann í Reykjavík í söngnám hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og píanónám hjá Guðríði Sigurðardóttur og var þar í eitt ár. 

Þaðan lá leiðin í Listaháskóla Íslands í Skapandi tónlistarmiðlun. Aðalkennarar Silju í Listaháskólanum eru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Gunnar Benediktsson og Sigurður Halldórsson.

Lokaverkefni hennar sameinar það sem hún hefur lagt áherslu í námi sínu en það er klassískur söngur og að miðla tónlist til samfélagshópa sem hafa ekki greiðan aðgang að tónlistarviðburðum. 

Hún heimsótti dvalarheimili bæði í Reykjavík og á Akureyri og hélt tónleika á þeim stöðum ásamt Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara. Þar virkjaði hún íbúa í samsöng og flutti einnig óperuaríur og söngleikjalög. Hún tók viðtöl við íbúa og starfsmenn og kannaði hvaða áhrif það hefur á hið daglega líf að fá lifandi tónlist þar inn. Í lokaverkinu segir hún frá upplifun sinni á þessum heimsóknum og sýnir frá ferlinu ásamt því að vera með stutta tónleika í lokin. Með Silju á þessum útskriftartónleikum eru Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó, Óskar Magnússon gítar og Dagur Þorgrímsson tenór. Á efnisskránni verða fjölbreytt verk, þýsk ljóð, íslensk sönglög, óperuaría, dúett og fleira.

Útskriftartónleikar Silju verða 4.maí klukkan 20:00 í Sölvhóli, Sölvhólsgötu 13.