Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Steinar Þór, Telma Huld og Erlendur á Nordisk Panorama kvikmyndahátíðinni

  • 9.september 2024

Kvikmyndahátíðin Nordisk Panorama fer fram í Malmö í Svíþjóð dagana 19.-25. september. Hátíðin, sem nú er haldin í 35. sinn, er flaggskip norrænnar kvikmyndagerðar þar sem áhersla er lögð á heimildarmyndir og stuttmyndir.

Kvikmyndalistadeild á þrjá fulltrúa á hátíðinni í ár en það eru þau Steinar Þór Kristinsson og Telma Huld Jóhannesdóttir, nemendur á 2.ári og Erlendur Sveinsson, fagstjóri við deildina.

 

Framlag Steinars Þórs Kristinssonar á hátíðinni er stuttmyndin Fragments of the Attempt eða Brot af atvikinu. Myndin keppir um titilinn besta norræna stuttmyndin og fjallar um mæðgur á veiðum í skóglendi þegar undarlegt hljóð vekur athygli þeirra.  Steinar er bæði leiksjóri og framleiðandi myndarinnar. Besta norræna stuttmyndin verður kynnt á verðlaunaafhentingu hátíðarinnar þann 24. september.

 

Stuttyndin Moon Pie Vanilla verður sýnd á þann 21. september en sýningin verður tileinkuð stuttmyndum í flokki gamanmynda. Erlendur Sveinsson, fagstjóri í kvikmyndalistadeild, er leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar og fjallar um taugaveiklaðan ræningja og tilraun hans til þess að ræna sjoppu. Hann virðist þó ekki vera sá eini í þeim erindagjörðum í umræddi sjoppu.

Telma Huld Jóhannesdóttir er leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar 84% en myndin var valin til sýningar á viðburðinum The Nordic Short Film Pitch. Viðburðurinn hefur það markmið að sameina fólk í stuttmyndagerð og skapa vettvang fyrir þau til þess að deila reynslu sinni og mynda mögulegt samstarf þeirra á milli. Myndin 84% fjallar um konu sem á erfitt með að fóta sig í samfélaginu eftir að kæra hennar vegna kynferðisofbeldis er felld niður.

Við óskum okkar fólki góðs gengis á hátíðinni og erum afar stolt af framlagi þeirra og þátttöku.