Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Steinunn María hlaut viðurkenningu Halldórs Hansen 

  • 5.júní 2024

Viðurkenning úr styrktarsjóði Halldórs Hansen var veitt í nítjánda sinn 3. júní, síðastliðin og var athöfnin haldin í Salnum Kópavogi.  

Sjóðurinn hefur árlega veitt viðurkenningu frá 2004, að undanskildu árinu 2011.  

Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja uppbyggingu tónlistarsafns Listaháskóla Íslands, ásamt því að veita styrk til framúrskarandi tónlistarnema innan raða Listaháskólans.  

Í ár var það Steinunn María Þormar sem hlaut viðurkenningu sjóðsins. Steinunn María er að ljúka þriggja ára námi í BMus í söng við Listaháskóla Íslands og hlaut hún styrk uppá eina milljón úr sjóðnum.  

„Það er mér mikill heiður og hvatning að fá þennan styrk. Ég alveg hreint elska að syngja og spila og ég elska tónlist því hún er miðill sem hefur sameiningarmátt og tungumál sem allir skilja“ sagði Steinunn María um styrkveitinguna.     

Af tilefninu voru flutt valin tónlistaratriði við undirleik Matthildar Önnu Gísladóttur, aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Steinunn María söng alls þrjú lög og styrkþegi sjóðsins frá 2021, Áslákur Ingvarsson, flutti tvö lög.  

Magnús Lyngdal, varamaður í stjórn Styrktarsjóðsins flutti erindið Rómantísk átök: Brahms og Wagner og „nýþýski skóli“ 19. aldar.   

Kristín Eysteinsdóttir rektor Listaháskóla Íslands sagði af tilefninu: „Gjöf Halldórs Hansen til Listaháskólans er okkur mikils virði á margan hátt, efnislega að sjálfsögðu – en ekki síður til að minna okkur á það sem skiptir máli í lífinu: listina, fegurðina í fjölbreytileikanum og mennskuna. Það er víst er að gjöf Halldórs til Listaháskóla Íslands er gjöf sem heldur áfram að gefa.“ 

Við óskum Steinunni innilega til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í komandi verkefnum.  

 

Um Sjóðin 

Styrktarsjóður Halldórs Hansen starfar undir væng Listaháskólans. Meginmarkmið hans er að styrkja uppbyggingu og styðja við tónlistarsafn skólans. Auk þess veitir sjóðurinn árlega styrki til tónlistarnema, sem hafa lokið fyrsta háskólastigi, hafa að mati sjóðstjórnar náð framúrskarandi árangri á sínu sviði og eru hugsuð sem hvatning þeirra sem þau hljóta. 

Halldór ánafnaði í erfðaskrá sinni Listaháskóla Íslands gríðarstóru plötusafni sínu með um 10.000 hljómplötum ásamt öðrum veraldlegum eigum sem renna skyldu í sérstakan sjóð í hans nafni.  

Stjórn sjóðsins mynda þau Kristín Eysteinsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands og formaður, Þóra Einarsdóttir, sviðsforseti kvikmynda-, tónlistar- og sviðslistadeildar í Listaháskóla Íslands og ritari, Pétur Jónasson, deildarforseti tónlistardeildar Listaháskóla Íslands og meðstjórnandi og Magnús Lyngdal Magnússon sem er varamaður í stjórn.    

Hægt er að kynna sér Styrktarsjóð Halldórs Hansen á vef Listaháskólans.