Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Eurovision eru jólin…

  • ÞRÆÐIR
  • Þræðir - Tölublað 9
  • Linda Björg Guðmundsdóttir

Eurovision eru jólin…

Linda Björg Guðmundsdóttir

 

Það hefur varla farið framhjá neinum að Eurovision er mjög umlukin pólitík í ár. Ég ætla þó að skauta algjörlega framhjá henni. Það er alls ekki sökum afsöðuleysis heldur vil ég leggja áherslu á keppnina almennt og hvað hún á að standa fyrir.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, eða Eurovision (e. The Eurovision Song Contest), hófst sem tæknitilraun fyrir beina útsendingu á alþjóðlegum vettvangi. Í fyrsta sinn sem keppnin var haldin, árið 1956, var henni aðallega útvarpað en einhverjar myndavélar voru þó á staðnum.[1] Árið 1958 var hún send út í mynd úr sjónvarpsverinu Hilversum í Hollandi en það var einnig í fyrsta skipti sem sigurvegari ársins á undan hélt keppnina í sínu heimalandi eins og hefð er fyrir í dag.[2] Önnur áhugaverð staðreynd er að BBC var fyrst til að senda keppnina út í lit frá Albert Hall árið 1968.[3] En öruggt er að segja að saga keppninnar hefur frá byrjun verið samofin tækniframförum síns tíma.

Ekki hætta að lesa hérna því ég ætla nú ekki að festast í að telja upp ártöl og staðreyndir heldur vil ég gera það sem á betur við við mig og skrifa út frá hjartanu og minni upplifun.

Fyrsta Eurovision minningin mín er að sjálfsögðu heima í stofu:

Árið er 1999 og Selma Björnsdóttir syngur á sviðinu með einum of peppuðum dans-jakka-gaurum. Glimmerið á bringu hennar skín beint í augun á 8 ára gömlu Lindu sem heillast jafnt af krúttlegri hárgreiðslunni og óvæntu fatakombói (sem er kjóll með buxum). Fyrsta sorgin, Ísland rænt sigrinum en uppsker engu að síður besta árangur sinn í keppninni fram að þessu, 2. sætið. Svíþjóð vinnur óskiljanlega eð því sem virðist stolið ABBA lag. Lítil eyru heyra nú ýmislegt, sjáið til. En Svíþjóðarmærin Charlotte Nilsson hafði betur með laginu ,,Take Me To Your Heaven“.

Ég er enn á því í dag að við hefðum átt að vinna, enda ,,All Out Of Luck“ tímalaus klassík. Ég var það ástríðufull að ég lærði dansinn (sem peppuðu gaurarnir dönsuðu) og eitt af fyrstu lögunum sem ég samdi hét ,,Follow Your Heart“, en sú lína er tekin úr laginu hennar Selmu, sem hún samdi sjálf með Sveinbirni I. Baldvinssyni og Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni.[4] Þessi setning í laginu sem hljómar svona: ,,You‘ll always be alright just as long as you follow your heart“ hefur greinilega lifað vel og lengi með mér en ég var 13 ára gömul þegar ég samdi mitt lag. En síðan þá hefur ekki verið aftur snúið. Aðdáun mín á keppninni óx með hverju ári sem leið. Ég lærði meira, þroskaðist og varð meira tæknilega sinnuð rétt og eins og Eurovision.

Mynd 1: Undirrituð, 8-9 ára gömul, í absalút uppáhalds dressinu sínu (reyndar blátt en ekki hvítt eins og Selma).

Keppnin hefur með árunum þróast og orðið einhver stærsti tæknilegi viðburður heims, allavega hvað upptöku-, útsendingar- og sviðstækni varðar. En eftir því sem keppnin hefur stækkað hefur tæknin fylgt fast á eftir og pressan orðið sífellt meiri í að gera keppnina glæsilegri. Hér erum við að tala um ljós, eldvörpur, LED gólf og hreyfanlega skúlptúra. Til dæmis árið 2022 í Torino var  foss hluti af sviðinu.

Þetta er ekki bara tónlist og söngur, þetta eru búningar, ljósastillingar og fagurfræði, verkfræði og hönnun, sviðsetning og leikstjórn. Svona sýning sem krefst þekkingar á öllum listgreinum vekur auðvitað mikla athygli og til að mynda voru 162 milljónir manna sem fylgdust með árið 2023. Að sjálfsögðu Íslendingar með hæsta áhorfshlutfall eða um 98,7% þetta sama ár.[5]

Þessi keppni nær vel út fyrir Evrópu en Ástralir hafa fylgst með frá árinu 1983.[6] Asíubúar[7] og Bandaríkjamenn fylgjast einnig með á sínum streymisveitum.[8]

Það ætti því ekki að fara framhjá neinum að um gríðarlega mikinn stökkpall er að ræða fyrir keppendur. Hér gefst færi á að vera ekki einungis fulltrúi lands og þjóðar heldur líka að kynna sína eigin tónlist og sjálfan sig. Þetta er nefnilega meira en bara þriggja mínútna lag. Með tilkomu samfélagsmiðla eins og TikTok og Instagram hefur umgjörðin í kringum eitt lag stækkað verulega.

Ég held að það hafi verið í vissum hópum (og sé mögulega enn) einhvers konar ,,stigma“ eða skömm sem fylgir því að senda lag í svona keppni. Þetta sé bara fyrir áhugafólk en ekki þá sem vilja búa til „alvöru“ tónlist, að europopp sé bara einhver formúla. Er virkilega hægt að koma öllu því sem maður vill tjá fyrir á þremur mínútum? Kannski ekki, en er þetta þá ekki góð áskorun?

Ég ætla að leyfa mér að svara einungis því er snýr að formúlu fyrir europopp en hinar spurningarnar eru meira til íhugunar. En í stuttu máli; já, það er auðvitað hægt að fylgja því sem maður heldur að sé uppskrift fyrir árangur í Eurovision. ABABCB, upphækkun, eitthvað álíka. En það er ekki þar með sagt að það sé endilega vænlegast til vinnings. Það er ótal margt sem spilar þar inn í.

Nú veit ég ekki hvort besta dæmið fyrir þessu sé t.d. þegar Portúgalinn Salvador Sobral vann með laginu ,,Amar pelos Dois“ eða Ást fyrir tvo en það er allavega dæmi.

Kannski er aðalpunkturinn hérna að þetta getur alveg verið hvað sem er. Auðvitað eru fullmörg dæmi þar sem lag er sent í keppnina sem er ekki „týpískt“ Eurovision lag og gengur alveg ágætlega.

Ég hef það sterklega á tilfinningunni að ef þú sendir inn lag, sem hægt er að tengja við á einhvern hátt, og þú trúir sjálf/t/ur á boðskapinn og fylgir honum áfram þá er hægt að gera galdra. Þetta þarf að vera meira en bara lag, það þarf að vera góð heildarsýn á verkið sem mætti helst spila á alla strengi listarinnar.

Þeir sem ná að lesa á milli línanna sjá bersýnilega að ég er ,,hopeless romantic“, bjartsýnistýpa og lít á Eurovision sem sameiningu, ást og gleði. Eurovision er ekki bara keppni í söng, Eurovision eru jólin. Uppskera, partý, tækniundur, kómedía, dramatík, sýning, allt í bland.

Náði ég mögulega að sannfæra einhverja lesendur til að taka þátt í næstu keppni?

Ef svo er þá er markmiði mínu náð.


 

[1] EurovisionWorld. (e.d.). Eurovision 1956 Results: Voting & Point. https://eurovisionworld.com/eurovision/1956

[2] Eurovision. (e.d.). Hilversum 1958. https://eurovision.tv/event/hilversum-1958

[3] BBC. (e.d.). Eurovision first broadcast. https://www.bbc.com/historyofthebbc/anniversaries/may/eurovision-first-broadcast/

[4] EurovisionWorld. (e.d.). Eurovision 1999 Iceland: Selma Björnsdóttir – „All Out Of Luck“. https://eurovisionworld.com/eurovision/1999/iceland

[5] Eurovision. (2023, 25. maí). Eurovision 2023 reaches 162 million viewers with record breaking online engagement and musical impact. https://eurovision.tv/story/eurovision-2023-reaches-162-million

[6] Eurovision. (e.d.). Countries: Australia. https://eurovision.tv/country/australia

[7] Eurovoix News. (2021, 12. febrúar). Chian‘s Relationship with the Eurovision Song Contest. https://eurovoix.com/2021/02/12/%F0%9F%87%A8%F0%9F%87%B3-chinas-relationship-with-the-eurovision-song-contest/

[8] The Hollywood Reporter. (2023, 9. maí). How to Stream Eurovision 2023 Online in the U.S. https://www.hollywoodreporter.com/lifestyle/lifestyle-news/watch-stream-eurovision-in-usa-1235480815/

 

Úr sama tölublaði