Útskriftarhátíð NAIP-námsins að hefjast
Útskriftarviðburðir nemenda í alþjóðlega meistaranáminu NAIP (e. New Audiences Innovative Practice) eða Sköpun, miðlun og frumkvöðlastarf fara fram þessa dagana. Viðburðirnir eiga sér stað í Norræna húsinu, Bíó Paradís, Smekkleysu, Salnum, Elliðaárstöð, Gömlu slökkvistöðinni, Gufunesi og Núllinu, Bankastræti á tímabilinu 26. mars til 1. maí næstkomandi.
Alls eru þetta níu viðburðir sem eru af ólíkum toga og teygja sig yfir mörg listform enda leggur námsleiðin upp úr því að hver nemandi finni sína rödd og sína tjáningarleið í gegnum ólíka miðla.
Sigurður Halldórsson fagstjóri NAIP segir námið hafa verið í þróun frá 2007. Fyrstu nemendurnir í LHÍ útskrifuðust 2011 og eru útskrifaðir nemendur orðnir um 50. Nokkrir evrópskir skólar hafa komið að þróun námsins auk skóla frá Bandaríkjunum og Singapúr en LHÍ hefur verið með frá upphafi námsins, ásamt Prins Claus tónlistarháskólanum í Groningen í Hollandi. Nokkrir nemendur og kennarar eru einmitt nýkomnir úr vikulangri dvöl í Groningen þar sem unnið var þverfaglega að listsköpun í Grand Theater leikhúsinu. Þótt námið sé formlega tónlistarnám þá er mikið pláss fyrir tilraunir með þverfagleika listanna og margir nemendur vinna með blönduð form. Námið undirstrikar samfélagslegt gildi listanna og mikið er lagt upp úr samstarfi bæði innan og utan skólans.
Að sögn Berglindar prófessors við NAIP námsleiðina segir hún listræna dirfsku einkenna nemendur sem velja sér NAIP námsleiðina og ánægjulegt að sjá að nemendur leita sér óspart þekkingar í ólíkum deildum skólans. Námið er í eðli sínu opið og býður nemendum að finna sínar leiðir, sem m.a. felst í miklu vali innan námsins. „Við trúum á að styðja hvern og einn nemanda í vegferð sinni og sú vegferð er aldrei eins” segir Berglind.
Þess má geta að hægt er að sækja um NAIP-námsleiðina til 8. apríl næstkomandi.