Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuBerglind Laxdal útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2024.
Hér er á ferðinni eigindleg rannsókn á stöðu einhverfra barna í skólakerfinu, rannsóknin byggir á viðtölum við börn og ungmenni á aldrinum 9-19 ára og foreldra eða forráðafólk þeirra. Hugmyndafræði sálfræðingsins Mihaly Csikszentmihalyi um flæði í sköpun var tvinnað inn í viðtöl við börnin. Rannsakandi hannaði þrjá flæðisleiki sem hugsaðir voru til að milda andrúmsloft og byggja upp traust og áhuga.
Auglýst var eftir viðmælendum í gegnum Einhverfusamtökin og komu viðmælendur frá Norðurlandi, Suðurlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu. Viðtölin fóru fram í heimabyggð viðmælenda.
Kjörorð „Ekkert um okkur, án okkar“ var haft að leiðarljósi í rannsókninni og reynt var að nálgast efni og greinar eftir skynsegin fólk eins og unnt var. Fræðigreinar um inngildingu, fötlunarfræði, jaðarsetningu og útilokun voru meðal annars skoðaðar í þessu samhengi.
Í draumaveröld eru allir einstaklingar jafnir og hafa sömu tækifæri í lífinu, en raunveruleikinn er því miður annar. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir að það er rof í samstarfi heimila og skóla þegar kemur að málefnum einhverfra nemenda og foreldra þeirra. Þar hefur þekkingarleysi starfsfólks skóla á einhverfu mikil áhrif og skortur á þekkingu á því hvernig hægt er að aðlaga kennslu og umhverfi svo það henti betur öllum börnum. Í lokin eru settar fram hugmyndir um skynvæna skóla byggðar á niðurstöðum rannsóknarinnar og þeim breytingum sem einhverfir nemendur vilja sjá í skólakerfinu til að þarfir þeirra og vellíðan sé í forgangi.
Leiðbeinandi: Margrét M. Norðdahl
30 ECTS MA