Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Borgþór Jónsson

Borgþór Jónsson útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild haustið 2024.

 

Tónfræðamolar

Fræðslumyndbönd fyrir tónfræði á grunnstigi

 

Tónfræðamolar eru myndbönd sem leitast við að kynna hugtök tónfræðana frá fyrstu skrefum og að grunnprófi í tónfræði. Myndböndunum er ætlað að vera námsgögn og uppflettirit fyrir nemendur í tónlist þar sem hver áhorfandi getur horft á myndband eins oft og honum sýnist til þess að ná góðum skilningi á innihaldi þess. Myndböndunum verður hlaðið upp á streymisveituna YouTube, þar sem aðgengi að þeim er auðsótt, og auðvelt er að finna þau ef leitað er eftir hugtökum tónfræðana á internetinu.

Í þessu verkefni geri ég grein fyrir undirbúningi mínum á framleiðslu „Tónfræðamola“,
fræðslumyndbanda sem kynna hugtök nótnaritunarþátts Aðalnámskrár tónlistarskóla að grunnprófi. Ég byggi vinnuna á niðurstöðum rannsókna um notkun myndbanda við kennslu sem benda til þess að mjög stutt og hnitmiðuð myndbönd, sem nýta sér myndræna og hljóðræna þætti til að miðla upplýsingum, skili bestum árangri í kennslu.

Til þess að ná markmiðum um skýrleika og lengd brýt ég nótnaritunarþátt Aðalnámskrár tónlistarskóla niður í marga þætti sem hægt er að hanna utan um myndbönd sem hvert tekur innan við fimm mínútur að horfa á. Ég bý til prufumyndband til þess að byggja praktískan skilning á öllum kimum myndbandagerðar, frá handriti að upphleðslu á netið. Ferlið við gerð prufumyndbandsins er svo gaumgæfilega skrifað niður þar sem ég fer yfir hvert skref við framleiðsluna, og tel síðan saman hvað gekk vel, hvað fór miður og hvernig áframhaldandi vinna við gerð myndbandana gæti farið fram.

Ég bind vonir við að myndbönd sem þessi verði góð stoð við tónfræðanám á Íslandi, bæði innan sem utan kennslustofu, og auki aðgengi að og áhuga á tónfræðinni hjá tónlistarfólki framtíðar.

 

Hlekkur á Tónfræðimola á YouTube

 

 

Leiðbeinandi: Elín Anna Ísaksdóttir
10 ECTS M.Mus.Ed.
2024