Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Haukur Þórðarson

Haukur Þórðarson útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild haustið 2024.

 

Fagmennska, starfsmenntun og starfsréttindi tónlistarkennara

 

Í hverju er fagmennska kennara falin? Hugsjónin um fagmennsku felur í sér trúnað við siðferðileg gildi og skyldur starfsins við samfélagið. Aðrar kenningar vefengja hugsjónina og segja eðli fagstétta eiga sér aðrar rætur, til dæmis í sjálfhygli eða einokun yfir starfssviði og þekkingu. Samkvæmt hugsjóninni um fagmennsku eru meginþemun í einkennum fagstéttar siðferðilegar skuldbindingar, sjálfræði um hvernig störf eru unnin og ábyrgð á framþróun í faginu. Bendir eitthvað til þess að stétt tónlistarkennara uppfylli eitthvað af þessum einkennum?

Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn. Tekin voru viðtöl við fjóra tónlistarskólastjóra, tvo á landsbyggðinni og tvo á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangur viðtalanna var að athuga hvaða menntunarkröfur tónlistarskólastjórar gera við mannaráðningar og hverju þeir horfa eftir í fari kennara. Notast var við þemagreiningu við úrvinnslu viðtalanna og niðurstöðurnar tengdar við meginþemun siðferðileg skuldbinding, sjálfræði um eigin störf og ábyrgð á starfsþróun í faginu.

Niðurstöður benda til þess að tónlistarskólastjórar líti á sína kennara sem vel menntaða fagmenn sem axla ábyrgð á umbótum í faginu og sýni jafnframt siðferðilega skuldbindingu gagnvart gildum starfsins. Viðmælendur rannsóknarinnar voru á einu máli um að þessi atriði skiptu sköpum í að skapa sem best skilyrði til náms.

Leiðbeinandi: Atli Vilhelm Harðarson
20 ECTS M.Mus.Ed.
2024