Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Hildur Jakobína Tryggvadóttir

Hildur Jakobína, oftast kölluð Bíbí, býr í Reykjavík með unnusta sínum og tveimur dætrum. Hún hefur dansað frá unga aldri og alltaf haft mikinn áhuga á sviðslistum. Bíbí lauk námi frá  Kvikmyndaskóla Íslands í kvikmyndagerð og leiklist. Einnig námi í  sviðslistum frá CISPA – Copenhagen International School of Performing Arts í Kaupmannahöfn. Hún hefur unnið að margháttuðum verkefnum tengdum sviðslistum og kvikmyndagerð.

 

Hún hefur unnið hjá Þjóðleikhúsinu sem dansari, leikari og sem aðstoðarleikstjóri og hjá Borgarleikhúsinu við leiklistar- og danskennslu. Einnig hefur hún kennt sviðslistir í grunn- og framhaldskólum og unnið við kvikmyndaframleiðslu m.a. hjá True North, auk fjölda smærri og stærri verkefna á þessu sviði.

 

Hildur Jakobína útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2024.

 

 

Tækifæri sviðslista í grunnskólum landsins

Mótun námsefnis: Lyklarnir að tjáningu og sköpun

 

Útdráttur

Heildstætt samfélag kallar á heildstæða menntun. Óhætt er að segja að auður þjóða liggi í menntun barna og þeirri þekkingu sem þar býr. Á undanförnum áratugum hefur íslenskt samfélag þróast og fjölþætt þjóðfélag krefst fjölbreyttra kennsluaðferða fyrir ólíka nemendur. Æskilegt er, að nemendur finni snemma á skólagöngunni styrkleika sína svo þeir geti byggt ofan á þá og fundið gleði í allri námsfamvindunni. Möguleikar sviðslista, dans og leiklistar, eru óteljandi í námi barna og eru færð rök fyrir því í Aðalnámskrá grunnskóla.

Höfundur þessa verkefnis hefur samið kennsluefni tengt sviðslistum sem ætlað er kennurum grunnskóla og nemendum þeirra. Hugmyndir höfundar eru sprottnar út frá reynslu hans sem sviðslistarkennari í grunnskóla á höfuðborgasvæðinu. Þörf er fyrir slíkt kennsluefni þar sem fátt er um kennsluefni í þessum fögum. Vonandi verður þetta kennsluefni viðbót í flóru kennsluefnis sviðslista og kennurum hvatning til þess að nota kennsluaðferðirnar, hvort sem það gefur tilefni til að samþætta námsefni eða leyfa nemendum að prófa skapandi leiðir.

Leiðbeinandi: Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir