Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.

Skoða vefinn á Íslensku

Hildur Smith Ólafsdóttir

Hildur Smith Ólafsdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2024.

 

Lífið er dans.

Samspil grunnþátta aðalnámskrár grunnskóla og skapandi dans.

 

Viðfangsefni þessarar rannsóknar er að kanna ávinning af danskennslu í grunnskólum út frá grunnþáttum Aðalnámskrár grunnskóla; heilbrigði og vellíðan, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, læsi, sjálfbærni og sköpun. Rannsóknin var í tveimur liðum. Annars vegar var um að ræða eigindlega rannsókn þar sem viðtöl voru tekin við starfandi danskennara í grunnskólum til að kanna upplifanir þeirra og viðhorf á danskennslu með tilliti til alhliða menntunar nemenda. Viðmælendur gáfu góða innsýn inn í kennslufræðilega nálgun sína og viðhorf þeirra til menntunar barna. Með umfangsmikilli þekkingu á listforminu geta þeir boðið nemendum upp á fjölbreytta nálgun og tækifæri til að rannsaka viðfangsefnin sem einkenna skapandi danskennslu.

 

 

Niðurstöður sýndu að nemendur fá mikla þjálfun í félagsfærni, mikilvægan vettvang fyrir útrás og sköpun og jafnframt er námið valdeflandi fyrir nemendur. Hins vegar var um að ræða starfendarannsókn þar sem ég hélt dagbók og ígrundaði kennsluhætti mína sem danskennari í grunnskóla. Niðurstöður sýndu að ég hef mikla trú á sameiningarkrafti dansins og að í danskennslu njóti nemendur mikils jafnréttis óháð bakgrunni. Samhliða starfendarannsókn framkvæmdi ég tilviksrannsókn í þeim tilgangi að kafa dýpra í grunnþáttinn jafnrétti. Lagðar voru þrjár æfingar fyrir nemendahópa í 1. – 4. bekk og kannað hversu árangursrík kennslan yrði þegar kennari tæki fullan þátt í æfingunni en útskýrði sem minnst með orðum. Tilviksrannsóknin sýndi fram á góðan árangur í þeim æfingum sem lagðar voru fyrir, en jafnframt hversu mikilvæg þátttaka kennarar er til að efla nemendur áfram og ýta undir þátttöku þeirra. Starfendarannsóknin var einnig þáttur í að efla fagmennsku rannsakanda og leggja grunn að starfskenningu. Báðar rannsóknir eru framlag til danslistarinnar í baráttunni til fullgildingar innan skólakerfisins.

Leiðbeinandi: Sandra Ómarsdóttir

30 ECTS MA