Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuKolbrún Berglind Grétarsdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2024.
Þessi meistararitgerð er vísir að skapandi kennslubók fyrir unga byrjendur í píanóleik, eins konar forskóli fyrir unga píanónemendur. Bókin er hugsuð fyrir 4-6 ára börn og byggir á kennslu í píanótækni í litlum skrefum þar sem barnið kynnist hljóðfærinu með huga og höndum í gegnum leik, sköpun, spuna og eigin tónsmíðar. Einnig lærir barnið hrynlestur, nótnalestur og að tengja nótnaheiti hljómborðsins við hefðbundna nótnaskrift. Ung börn hafa sterka innbyggða getu til þess að taka við upplýsingum, sérstaklega ef skrefin eru lítil, einföld og fara bæði fram í gegnum huga og líkama, í öruggu og glaðlegu umhverfi. Góður grunnur styrkir sjálfsmynd nemenda og helst í hendur við öryggi í allri framkomu. Það er mikilvægt fyrir valdeflingu og persónulegan þroska barnsins.
Ritgerðin er unnin í anda starfendarannsókna og í henni fléttast saman reynsla mín sem tónlistarkennari í tæp 20 ár og fræðilegur bakgrunnur sem styður efnið. Margar hugmyndir undangenginna kennara hafa þróast í gegnum árin og veita námsefni mínu farveg. Ég styðst einnig við dagbókarskrif sem ég hef stundað í gegnum námið mitt. Ef ungt barn fær tækifæri til þess að skapa og tjá sig á píanó áður en hefðbundið píanónám á sér stað ætti það að eiga auðveldara með að tileinka sér efnistök hefðbundinna kennslubóka í píanóleik og fara hraðar yfir þær. Með skapandi byrjendakennslu getur hljómborðið laðað fram leikgleði og sköpunarkraft sem hvort tveggja eru hverju barni eðlislæg, ef barnið fær hvatningu og góðan jarðveg til að vaxa í. Þetta nýtist barninu jafnt í klassísku námi sem og rytmísku, en mikilvægt er að nemendur hafi fengið tækifæri til að spreyta sig á hvort tveggja að námi loknu.
Leiðbeinandi: Elín Anna Ísaksdóttir
20 ECTS M.Mus.Ed.