Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuLaufey Björnsdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild haustið 2024.
Ritgerð þessi fjallar um rannsókn sem gerð var á skapandi vinnu nemenda í tengslum við tilfinninguna skömm. Markmið rannsóknarinnar var að sjá hvaða tækifæri felast í skapandi vinnu þegar kemur að kennslu eða dýpkun á skilningi ungmenna á tilfinningum á borð við skömm.
Kveikjan að rannsókninni var löngun mín til að sjá meiri áherslu lagða á kennslu í tilfinningalæsi og annarri færni sem stuðlar að meiri sjálfsþekkingu og sterkari sjálfsmynd nemenda. Rannsóknin fjallar þar af leiðandi um sköpun sem tæki til að auka skilning og tjá tilfinningar. Þátttakendur þessarar rannsóknar voru nemendur í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu, nánar tiltekið í áttunda og níunda bekk auk myndmenntakennara þeirra.
Rannsóknin fólst í verkefni sem nemendur unnu og samræðum um vinnuna sem og útkomuna. Í verkefninu áttu þau að skapa tilfinninguna skömm. Einnig fengust ákveðin gögn með viðtali sem tekið var við kennara hópsins. Því miður virðist það vera svo að ungmenni í dag eigi erfitt uppdráttar á vissum sviðum. Rannsóknir sýna bæði aukningu á kvíða og þunglyndi meðal unglinga sem og skorti á getu til að beita skapandi hugsun. Mikilvægt er að nýta skólakerfið til að vinna á þessum vanda. Þrátt fyrir þetta virðast áherslur í skólum vera settar á próf og einkunnir frekar en þroska og vellíðan nemenda sökum pressu á að nemendur nái ákveðnum árangri.
Menntun til farsældar, mannkostamenntun og menntun í tilfinningalæsi eru allt fyrirbæri þar sem áhersla er lögð á þroska nemenda og góða sjálfsþekkingu í staðinn fyrir góðar einkunnir í prófum. Nemendur þurfa að fá frelsi til að beita huganum á skapandi, gagnrýnin og sjálfstæðan hátt í staðinn fyrir að vera mataðir af upplýsingum til að standast próf.
Þessi rannsókn sýndi að nemendurnir sem tóku þátt í henni eru ekki vanir að nota skapandi hugsun í verkefnum og að þeim þykir það krefjandi. Þau virtust þó græða mikið á verkefninu þar sem svör þeirra í samræðum gáfu til kynna nýjan og dýpri skilning á tilfinningunni skömm. Þannig má segja að niðurstaða rannsóknarinnar gefi ákveðna vísbendingu um að skapandi verkefni séu góður vettvangur fyrir kennslu í tilfinningalæsi sem hægt er að nýta meira í námi barna og unglinga.
Leiðbeinandi: Ingimar Ólafsson Waage
20 M.Art.Ed. listkennslufræði
2024