Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuRagnhildur Ragnarsdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild haustið 2024.
Þessi greinagerð er hluti af persónulegu ferðalagi vaxtar í gegnum kennslu og listsköpun þar sem að ég sjálf er tilraunaverkefnið. Eftir að hafa burðast með efasemdir um eigið ágæti frá því að ég lauk námi í grafískri hönnun, þróaðist rannsóknin í átt að autoethnografískri sjálfsskoðun, ásamt því að vera starfendarannsókn og listrannsókn. Með því að beina athyglinni inn á við rannsakaði ég mína innri orðræðu og leitaði leiða til að milda neikvæðar hugsanir gagnvart sjálfri mér.
Ferlið hefur verið lagskipt og áhugaverðar vörður hafa beint mér inn á nýjar brautir. Ég skráði upplifanir og hugsanir gagnvart kennslu í dagbækur til að efla sjálfa mig sem fagmanneskju og urðu þau skrif mikilvægur undanfari listrannsóknarinnar.
Markmiðið með listrannsókninni var að styrkja sjálfsmynd mína í gegnum listsköpun þar sem að ferlið sjálft væri í aðalhlutverki, án væntinga um útkomu. Þessar tilraunir kalla ég „hermiverk“ og í sköpunarferlinu skrásetti ég líðan mína með hljóðupptökum og tók myndir af verkunum.
Ásetningur minn í ferlinu var að gefa mér leyfi til að vera ófullkomin, mistakast og finna gleðina í sköpunarferlinu. Ég minnti mig reglulega á að ég þyrfti ekki að gera neitt stórkostlegt, einungis að læra með því að gera. Um 450 hermiverk urðu til á fjórtán dögum og munu nokkur þeirra prýða veggi heimilis míns á sýningu í tilefni útgáfu þessarar greinagerðar haustið 2024.
Leiðbeinendur: Gunndís Ýr Finnbogadóttir og Ingimar Ólafsson Waage
30 ECTS MA listkennslufræði
2024