Automatic translation by Google Translate.We cannot guarantee that it is accurate.
Skoða vefinn á ÍslenskuÞórunn Ylfa Brynjólfsdóttir útskrifast með meistaragráðu og kennsluréttindi frá listkennsludeild vorið 2024.
Viðhorf listdanskennara til listdanskennslu og áhrifa hennar á velferð nemenda
Í þessari ritgerð er greint frá rannsókn á viðhorfum listdanskennara til listdanskennslu og áhrifa hennar á velferð dansnemenda. Kveikjan að rannsókninni var að kanna möguleika listdansmenntunar til farsældar nemenda. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggist á sex einstaklingsviðtölum við listdanskennara sem starfa eða hafa starfað í fimm listdansskólum á höfuðborgarsvæðinu.
Markmið rannsóknarinnar var að gefa kennurum rödd, kanna hvernig listdanskennsla mótar einstaklinginn, greina hindranir og áskoranir, ræða framtíðarsýn og setja fram hugmyndir um nýjar áherslur. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar nær yfir þá stöðu sem hefur einkennt vestrænt menntakerfi í gegnum tíðina og hvernig hún fléttast inn í umræðuna um listdanskennslu og dansnemendur. Stuðst er við fræðileg skrif dansfræðingsins Susan Stinson.
Rannsóknin leiddi í ljós það viðhorf kennara að mikilvægi menntunar í atvinnumiðuðu listdansnámi snúist ekki einungis um að efla tæknilegri færni heldur einnig að þroska hæfni og dygðir sem gagnast nemendum í lífinu. Viðhorf listdanskennaranna báru merki um vitundarvakningu þar sem áherslan er lögð á nemandann og velferð hans. Kennararnir töldu að stigveldi innan listdanskennslu gæti staðið í vegi fyrir velferð nemenda og gæti haft margvísleg áhrif á þá.
Niðurstöðurnar gáfu til kynna að stigveldi sé ómeðvitað og rótgróið innan listdanskennsluformsins. Niðurstöðurnar sýna einnig að íslenska listdanskennarastéttin stendur frammi fyrir margvíslegum og kerfisbundnum takmörkunum sem móta kennsluhætti og takmarka starfsþróun hennar. Ljóst er að nýjar áherslur og nálganir þurfa að eiga sér stað ef við ætlum að stuðla að aukinni farsæld og velferð dansnemenda. Innleiða þarf aðferðir sem viðurkenna og efla gildi mannlegra þátta. Kerfið þarfnast breytinga en slíkar breytingar eru krefjandi í framkvæmd og eru langtímaverkefni. Þær kalla á hugrekki, ígrundun, samtal milli kennara, aukið samstarf milli skóla, opinn huga, tíma, þolinmæði og stuðning til að feta nýjar slóðir.
Leiðbeinendur: Ingimar Ólafsson Waage og Sandra Ómarsdóttir
30 ECTS MA